Fjölnir og KR hafa komist að samkomulagi þess efnis að markvörðurinn Þórður Ingason verði lánaður til KR út leiktíðina. Hrafn Davíðsson, markvörður, samdi við Fjölni til tveggja ára en þeir Þórður og Hrafn deildu með sér stöðu markvarðar hjá Fjölni á síðustu leiktíð.
Þórður er 21 árs gamall og hefur varið mark Fjölnis frá 17 ára aldri. Hann hefur leikið 33 leiki með liðinu í úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár og á að baki 5 leiki með 21-árs landsliði Íslands. Þá hefur hann verið valinn í A-landsliðshópinn, án þess að spila.
Þórður er þegar orðinn gjaldgengur með KR og gæti spilað með liðinu gegn Víkingi í Reykjavíkurmótinu á laugardaginn.