Fram og KR í undanúrslit Lengjubikarsins

Halldór Hermannsson og Hólmar Örn Rúnarsson í baráttunni á Fram …
Halldór Hermannsson og Hólmar Örn Rúnarsson í baráttunni á Fram vellinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram og KR eru komin  undanúrslit í deildabikarkeppni karla í knattspyrnu, Lengjubikarnum. Fram hafði betur gegn Keflavík þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni og KR-ingar skelltu Íslandsmeisturum FH og ríkjandi deildabikarmeisturum, 4:1.

KR fékk óskabyrjun gegn FH á gervigrasinu á KR-velli því eftir hálfa mínútu skoraði Guðjón Baldvinsson. Ólafur Pálll Snorrason jafnaði metin fyrir FH í byrjun seinni hálfleiks en KR-ingar svöruðu með þremur mörkum á 10 mínútna kafla og voru Óskar Örn Hauksson, Björgólfur Takefusa og Guðjón Baldvinsson þar af verki. Norðmaðurinn Lars Ivar Moldskred stóð á milli stanganna hjá KR-ingum en þar er á ferð stór og stæðilegur markvörður sem stóð sig mjög vel.

Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu í leik Fram og Keflavík var jöfn, 1:1. Ívar Björnsson kom Fram yfir en Guðmundur Steinarsson jafnaði fyrir Keflavík. Fram hafði betur í vítaspyrnukeppni, 4:3. Samuel Tillen, Jónas Guðni Fjóluson, Hlynur Atli Magnússon og Daði Guðmundsson skoruðu úr spyrnum Framara en þeir Hólmar Örn Rúnarsson, Guðmundur Steinarsson og Magnús Matthíasson gerðu mörk Keflavíkur.

KR mætir í undanúrslitunum sigurvegaranum úr leik Þórs og Vals og Fram leikur við annað hvort Grindavík eða Breiðablik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert