Meistaraslagur í Kópavoginum

Blikinn Guðmundur Kristjánsson og FH-ingurinn Björn Daníel Sverrisson verða í …
Blikinn Guðmundur Kristjánsson og FH-ingurinn Björn Daníel Sverrisson verða í eldlínunni í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrír leikir fara fram í 4. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. Klukkan 17 mætast á Vodafone-vellinum ÍBV og Haukar, Fylkir og Fram leiða saman hesta sína í Árbænum klukkan 19.15 og klukkan 20 verður flautað til leiks bikarmeistara Breiðabliks og Íslandsmeistara FH á Kópavogsvelli.

Haukar - ÍBV 17:00

Eyjamenn leika sinn fjórða leik á fastalandinu en þetta er heimaleikur Hauka. ÍBV vonast til að leika sama leik og það gerði gegn hinu Hafnarfjarðarliðinu í vikunni en þá unnu Eyjamenn frækinn sigur á Íslandsmeisturum FH í Kaplakrika, 3:2. ÍBV er með 4 stig en Haukarnir stefna á að vinna sinn fyrsta sigur í deildinni. Þeir náðu frábæru jafntefli gegn KR-ingum í vesturbænum í 1. umferðinni en í kjölfarið fylgdu 1:0 tap á móti FH og 3:0 ósigur gegn Selfyssingum.

Fylkir - Fram 19:15

Það má reikna með hörkuleik í Árbænum en bæði lið hafa farið vel af stað. Framarar eru ósigraðir og eru með 7 stig en Fylkismenn eru með 6 stig eftir naumt tap fyrir toppliði Keflavíkur í vikunni. Fylkir hafði betur í rimmu liðanna í Ábænum í fyrra.

Breiðablik - FH 20:00

Stórleikur kvöldsins verður að teljast viðureign bikarmeistaranna og Íslandsmeistaranna sem einnig mætast í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar í næstu viku. Blikarnir mæta til leiks með gott veganesti en þeir unnu góðan útisigur á Valsmönnum í vikunni, 2:0, á meðan Íslandsmeistararnir máttu þola 3:2 tap gegn Eyjamönnum. Liðin áttust við í leik meistarar meistaranna á dögunum þar sem FH hafði betur, 1:0, með marki frá Viktori Erni Guðmundssyni sem er nú kominn í lán til Víkings. Í fyrra áttust liðin við í eftirminnilegum leik á Kópavogsvelli þar sem FH-ingar höfðu betur í, 3:2, eftir að hafa lent 2:0 undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert