Bjarni Guðjónsson miðjumaðurinn sterki í KR segir kominn tími til að KR-ingar innbyrði sinn fyrsta sigur í Pepsi-deildinni á tímabilinu en stórleikur kvöldsins í deildinni verður viðureign KR og toppliðs Keflavíkur sem eigast við í Frostaskjólinu.
,,Við erum bara vel stemmdir og það er tilhlökkun hjá okkur að mæta góðu liði Keflavíkur. Við lítum á þennan leik sem gott tækifæri til að rétta okkar hlut. Við ræddum um það fyrir mótið að hver einasti leikur í þessari deild yrði erfiður og við höfum heldur betur fengið að kynnast því. Deildin virðist vera jafnari heldur en hún hefur verið undanfarin ár,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is.
Heldur þú að þessi umræða fyrir mótið þar sem allir töluðu um að KR væri með langsterkasta lið hafi haft áhrif hugarfarið hjá ykkur?
,,Nei það held ég nú ekki. Úrslitin segja kannski annað en ég vil ekki viðurkenna að þessi umræða hafi sett okkur eitthvað út af laginu. Það er svo ekkert nýtt að KR byrji mótið frekar illa. Heimavöllurinn hefur ekki verið sú ljónagryfja sem við viljum að hann sé gagnvart andstæðingunum og því verðum við að breyta.
En nú er lag fyrir okkur að snúa þróuninni við og taka þau stig sem eru í boði í kvöld. Þetta er sex stiga leikur. Það er kannski asnalegt að segja það þar sem Keflavík er á toppnum en við í neðri hluta deildarinnar. En mótið er svo nýbyrjað og með sigri í kvöld getum við komist upp í miðja deild og verðum þá ekki nema fjórum stigum á eftir Keflavík. Við verðum að fara að koma okkur af stað,“ sagði Bjarni.
Grétars Sigfinns Sigurðarsonar fyrirliða KR-inga hefur verið sárt saknað í fyrstu þremur leikjum KR-inga sem eru án sigurs í deildinni með 2 stig eftir þrjá leiki. Grétar hefur átt við meiðsli að stríða en er byrjaður að æfa og gæti komið við sögu í kvöld.
Leikur liðanna hefst á KR-vellinum klukkan 20 en klukkan 19.15 mætast Selfoss og Stjarnan á Selfossi og Grindvíkingar fá Valsmenn í heimsókn.