Lúkas Kostic sagt upp hjá Grindavík

Lúkas Kostic fylgist með sínum mönnum í leik.
Lúkas Kostic fylgist með sínum mönnum í leik. mbl.is/Steinn Vignir

Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur sagt upp Lúkasi Kostic, þjálfara karlaliðs félagsins, í kjölfarið á fjórum ósigrum í fjórum fyrstu umferðum úrvalsdeildarinnar.

Grindvíkingar sendu frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu rétt í þessu:

"Stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Lúkas Kostic stígi til hliðar sem þjálfari liðsins.

Stjórn knattspyrnudeildar þakkar Lúkas Kostic fyrir gott samstarf og metnaðarfullt starf í þágu félagsins.

Stjórn knattspyrnudeildar vinnur nú að því að ráða nýjan þjálfara og verður tilkynnt síðar hver það verður."

Lúkas, sem er 51 árs gamall, tók við Grindavíkurliðinu fyrir ári síðan, 21. maí. Þá hafði liðið tapað þremur fyrstu leikjum sínum í úrvalsdeildinni og Milan Stefán Jankovic þjálfari vék til hliðar. Hann hélt áfram störfum sem aðstoðarþjálfari liðsins og hefur verið það síðan.

Lúkas var áður þjálfari Grindvíkinga árin 1994 og 1995. Liðið fór upp í efstu deild í fyrsta skipti fyrra árið, ásamt því að komast í úrslitaleik bikarkeppninnar, og kom mjög á óvart með því að halda sér í deildinni árið eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert