Baldur Sigurðsson, miðjumaður í KR var góður gegn ÍBV í bikarleik liðanna í kvöld en hann hefur til þessa spilað í miðverðinum. Hann átti von á hörkuleik.
„ÍBV hefur verið að spila mjög vel í deildinni og að mæta þeim á heimavelli var ekki það sem maður óskaði sér í bikarkeppninni. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur en bikarinn er svona, það er allt eða ekkert og mér fannst við KR-ingar spila vel í dag. Við vorum góðir í fyrri hálfleik og óheppnir að skora ekki en svo jafnaðist þetta aðeins í seinni hálfleik. Við náðum hins vegar að skora markið sem skipti máli í dag og við erum mjög sáttir við það,“ sagði Baldur sem fannst gott að fá Grétar Sigfinn Sigurðarson aftur inn í liðið.
„Já það er ekki spurning. Hann kemur með hæð inn í liðið og sjálfstraust og munaði mikið um það í dag. Þessi sigur kemur örugglega til með að kveikja í okkur. Ef svona sigur gerir það ekki, þá gerir það ekkert,“ sagði miðjumaðurinn sterki.