"Ég er hundfúll með þetta eins og allir KR-ingar eiga að vera þegar við töpum á móti Val á heimavelli," segir Gunnar Kristjánsson, framherji KR.
"Þetta er leikur sem við eigum að vinna og gera miklu betra. Við erum allir hundfúlir og þurfum að rífa okkur upp úr þessu. Í hálfleik var ég handviss um að við værum að fara að klára þetta, en það er eins og við dettum alltaf niður í leikjum. Það vantar stundum einhvern kraft. Við tökum oft góða kafla í hverjum leik, ég kann ekki skýringu á því hvers vegna við höldum aldrei dampi." segir Gunnar.
Gunnar mætti til leiks á 73.mínútu þegar Kjartani Henry Finnbogasyni var skipt af leikvelli. Gunnar hafði fyrir leikinn í dag leikið um 8 mínútur að eigin sögn allt tímabilið fyrir KR. Inntur eftir því hvers vegna hann hafi ekki leikið meira segist hann ekki hafa hugmynd um það: "Mér finnst að ég ætti að spila miklu meira. Mér finnst ég verðskulda það að spila meira, þó ég hafi að vísu ekki verið mjög ánægður með frammistöðu mína í þessum leik," segir hann.
Í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins er fjallað ítarlega um leik KR og Vals og hina þrjá leikina í deildinni.