Liðin tvö sem flestir spáðu tveimur efstu sætunum í upphafi Íslandsmótsins í knattspyrnu mætast í Kaplakrika í kvöld. FH tekur á móti KR en fæstir hefðu getað reiknað með því að staða þeirra 14. júní væri sú sem raun ber vitni. Íslandsmeistarar FH eru í 8. sæti og hafa aðeins unnið tvo af fyrstu sex leikjum sínum, og KR-ingarnir, liðið sem margir spáðu að myndi steypa þeim af stalli í ár, eru í 10. sætinu. Þeir unnu á dögunum sinn fyrsta sigur á tímabilinu.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH getur ekki stýrt sínum mönnum í kvöld þar sem hann tekur út eins leiks bann. Jörundur Áki Sveinsson verður því við stjórnvölinn á hliðarlínunni en Heimir verður í stúkunni. Pétur Viðarsson, miðvörður FH, verður í banni en hann fékk brottvísun, eins og Heimir, þegar FH gerði jafntefli, 2:2, við Fylki á dögunum.
KR-ingar hrukku í gang á ævintýralegum lokakafla gegn Fram á fimmtudagskvöldið og þeir gætu komist uppí miðja deild með sigri í kvöld.
Fjórir aðrir leikir fara fram í kvöld. Keflavík getur endurheimt efsta sætið þegar Haukar, sem eru án sigurs, koma í heimsókn í Reykjanesbæinn. Grindavík reynir að ná í sitt fyrsta stig gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Blikar eru hinsvegar eitt af nokkrum liðum sem geta komist á toppinn eftir þessa umferð. Fram, sem tekur á móti Stjörnunni, og Valur, sem fær Selfoss í heimsókn, eru líka í þeirri stöðu.
Leikur FH og KR hefst klukkan 20 en hinir klukkan 19.15. vs@mbl.is