Stórleikur kvöldsins er í Eyjum

ÍBV hefur aðeins leikið þrjá leiki á heimavelli í sumar …
ÍBV hefur aðeins leikið þrjá leiki á heimavelli í sumar en nú fá Eyjamenn fimm leiki í röð á Hásteinsvelli. mbl.is/Sigfús Gunnar

Stórleikur 11. umferðar úrvalsdeildar karla í fótboltanum í kvöld er án efa viðureign ÍBV og Keflavíkur. Liðin eru í 2. og 3. sæti deildarinnar og mætast á Hásteinsvellinum.

Þetta eru tvö sterkustu varnarlið deildarinnar, ÍBV hefur aðeins fengið á sig átta mörk í sumar og Keflavík níu, og þar af fengu Keflvíkingar á sig fjögur mörk í eina tapleiknum, gegn Stjörnunni.

Þá eru Eyjamenn það lið sem oftast hefur skotið á mark mótherjanna í sumar, 130 sinnum í 10 leikjum eða 13 sinnum að meðaltali í leik.

Með leiknum í kvöld hefst óvenjuleg heimaleikjahrina ÍBV sem spilar nú fimm leiki í röð í deildinni á Hásteinsvelli. Það kemur til vegna þess að leikjum liðsins við Val var víxlað í vor þegar Hásteinsvöllur var ekki leikfær vegna ösku úr Eyjafjallajökli.

ÍBV leikur sem sagt við Keflavík í kvöld, síðan koma Fram og Valur í heimsókn til Eyja seinna í þessum mánuði, og svo FH og Haukar með þriggja daga millibili í fyrstu vikunni í ágúst.

Breiðablik, sem nú trónir á toppi deildarinnar í fyrsta sinn í 28 ár, tekur á móti Stjörnunni á Kópavogsvelli. Þar fara tvö af líflegustu liðum deildarinnar í ár og líkurnar á markalausu jafntefli verða að teljast með minnsta móti.

FH og Fram eigast við í Kaplakrika en bæði lið þurfa á sigri að halda til að missa ekki efstu liðin of langt fram úr sér.

Grindavík og Selfoss eigast við í fallslag í Grindavík en eitt stig skilur að liðin í 10. og 11. sætinu.

Loks mætast Valur og Haukar á sameiginlegum heimavelli sínum á Hlíðarenda.

Leik Fylkis og KR var frestað til 22. júlí þar sem bæði lið spila í Evrópudeild UEFA í kvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka