Danski knattspyrnumaðurinn Rasmus Christiansen samdi í dag við Eyjamenn um að leika með þeim út keppnistímabilið 2011 en lánssamningur hans við ÍBV átti að renna út 18. júlí. Eyjafréttir greindu frá þessu í dag.
Christiansen var í láni hjá ÍBV frá danska úrvalsdeildarliðinu Lyngby, sem nú hefur rift samningi sínum við hann. Christiansen var því laus allra mála.
Christiansen er 21 árs gamall miðvörður og kom til liðs við ÍBV fyrir leik þeirra gegn Val í 2. umferð Íslandsmótsins. Hann kom inná í þeim leik og hefur verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum eftir það og á drjúgan þátt í sterkum varnarleik ÍBV sem hefur fengið á sig fæst mörk allra liða í deildinni.