Rúnar Kristinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KR, var í gær ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu í stað Loga Ólafssonar sem þjálfað hefur liðið frá 2007. Pétur Pétursson verður Rúnari til aðstoðar líkt og hann var Loga til aðstoðar áður. Rúnar og Pétur munu þjálfa liðið til loka yfirstandandi leiktíðar en þá er ætlunin að nýr þjálfari taki við.
Gengi KR-inga í sumar hefur verið langt undir væntingum en þeir áttu góðu gengi að fagna á síðustu leiktíð sem ríkjandi bikarmeistarar og urðu þá í 2. sæti. Þeir eru nú í 9. sæti Pepsi-deildarinnar með 13 stig eftir ellefu umferðir, helmingi færri stig en topplið Breiðabliks og ÍBV en sex stigum frá fallsæti.
„Við erum með fullt af góðum leikmönnum í hópnum hjá KR og þurfum bara að setjast niður og sjá hvað við getum lagað og bætt til að koma okkur ofar í deildinni,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann kann Loga góðar þakkir fyrir störf hans í Vesturbænum.
Viðtalið í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag.