„Við vorum eitthvað lengi í gang, eins og gerst hefur í leikjum sem byrja fyrripart dags en í seinni hálfleik byrjuðum við að spila að okkar hætti og þá kom þetta,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir úr Val eftir 3:0 sigur á Þór/KA að Hlíðarenda í undanúrslitum bikarkeppninnar.
Hallbera átti stóran þátt í fyrstu tveimur mörkunum með hnitmiðuðum fyrirgjöfum á kollinn á Kristínu Ýr Bjarnadóttur. Hún sagði upplifun á bikarúrslitaleik hafa sitt að segja. „Það var alltof langt á milli okkar framan af svo Þór/KA var með mikið pláss á miðjunni enda fékk þeirra lið hættulegri færi en mér fannst það snúast við í hálfleik, þá var eiginlega bara einstefna. Við vitum hvernig er að spila bikarúrslitaleik og vitum líka hvað það er ömurlegt að komast ekki þangað svo við vorum klárar á hvert við stefnum, það er alveg klárt.“