Haukar lýsa yfir stuðningi við Andra

Nýliðar Hauka hafa átt erfitt uppdráttar en stjórn og leikmenn …
Nýliðar Hauka hafa átt erfitt uppdráttar en stjórn og leikmenn kalla nú eftir samstöðu og stuðningi. mbl.is/Jakob Fannar

Í tilefni af umræðu í fjölmiðlum um stöðu Hauka í Pepsideild karla og um þjálfaramál félagsins hefur félagið ákveðið að senda frá sér tilkynningu þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við þjálfarann Andra Marteinsson þrátt fyrir að Haukar hafi enn ekki unnið leik í deildinni.

Undir tilkynninguna skrifa stjórn knattspyrnudeildar Hauka, rekstrarfélag Hauka og leikmenn Meistaraflokks Hauka

Tilkynninguna má lesa hér:

Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á uppeldisstarf í félaginu og hefur mikill metnaður verið lagður í að gera barna og unglingastarf félagsins sem best úr garði. Markmiðið er að byggja upp innan frá og stuðla að því að Haukar eigi framtíðarlið í úrvalsdeild karla og kvenna. Þetta faglega starf er að skila miklum árangri sem sést að 4 leikmenn U17 ára landsliðs Íslands eru frá Haukum. Félagið hefur á að skipa frábæru þjálfarateymi og starfsmönnum og markmið félagsins eru ekki skammtíma árangur heldur uppbygging til framtíðar þar sem hagur leikmanna er í heiðri hafður. Félagið horfir fram á bjarta knattspyrnuframtíð og efniviður félagsins og aðbúnaður er einn hinn besti á landinu.

Þjálfari meistaraflokks félagsins er hluti af þessu teymi. Undir stjórn Andra Marteinssonar hefur félagið farið upp um tvær deildir á mjög skömmum tíma þar sem byggt hefur verið fyrst og fremst á uppöldum Haukamönnum. Þegar liðið náði þeim frábæra árangri á síðasta ári að tryggja sér sæti meðal hinna bestu var strax lögð á það mikil áhersla að þeir leikmenn sem hart hafa lagt á sig fengju tækifæri til að spreyta sig meðal hinna bestu. Liðið var styrkt með reynslumeiri leikmönnum sem gætu miðlað af þekkingu sinni til yngri kynslóðarinnar. Árangur liðsins hingað til hefur ekki uppfyllt væntingar stuðningsmanna né stjórnarmanna enda markmið allra sem standa að liðinu að liðið muni áfram vera á meðal hinna bestu keppnistímabilið 2011. 

Stjórn knattspyrnudeildar, rekstrarfélags Hauka og allir leikmenn liðsins hafa fundað um stöðu liðsins og þjálfaramál félagsins. Allir hlutaðeigandi aðilar lýsa yfir fullum stuðningi við þjálfara liðsins og alla þá starfsmenn sem koma að liðinu. Saman erum við sannfærð um að félagið muni tryggja framtíðarsæti í úrvalsdeild undir stjórn Andra Marteinssonar, Arnars Gunnlaugssonar og þeirra teymis. Félagið er á réttri braut og áframhaldandi uppbygging innan félagsins mun gera Hauka að toppliði meðal hinna bestu innan fárra ára. 

Við skorum á allt Haukafólk að þjappa sér að baki félaginu og styðja við bakið á liðinu á endasprettinum. Öll höfum við okkar skoðanir á hvað er rétt og rangt og hverjir eiga að vera í liðinu og hverjir ekki, en sama hver stjórnar þá munum við alltaf vita betur. Stöndum saman og verum stolt af því að vera HAUKARI.

Stjórn Knattspyrnudeildar Hauka

Rekstrarfélag Hauka

Leikmenn Meistaraflokks Hauka

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka