Aðsóknarmet slegið á laugardaginn?

KR og FH mætast í hörkuleik á laugardaginn.
KR og FH mætast í hörkuleik á laugardaginn. mbl.is/Eggert

Aldrei hafa fleiri áhorfendur mætt á bikarúrslitaleik í knattspyrnu hér á landi en árið 1999 þegar KR og ÍA mættust. 7.401 áhorfandi sá KR vinna þar 3:1 sigur. Þetta met er í hættu því á laugardaginn mætast tvö bestu lið síðustu ára á Íslandi, sem eiga hvort um sig fjölda stuðningsmanna, FH og KR.

Síðustu ár hefur úrslitaleikurinn farið fram í október en nú er breyting á og vonast til að það skili fleiri áhorfendum á leikinn. Í fyrra mættu 4.766 á leik Fram og Breiðabliks, árið 2008 mættu 4.524 á leik KR og Fjölnis, og árið 2007 mættu 3.739 á leik FH og Fjölnis.

Miðasala hefur verið í gangi á midi.is í vikunni og gengur vel að sögn Þóris Hákonarsonar framkvæmdastjóra KSÍ. Benda má á að stuðningsmenn KR verða í hólfum A, B, C og D (nær Þróttarheimilinu) en stuðningsmenn FH í hólfum F, G, H og I (nær Laugum), en selt er í númeruð sæti.

Leikurinn hefst kl. 18 á laugardagskvöld og er ekki sýndur á RÚV eins og síðustu ár heldur á Stöð 2 Sport í lokaðri dagskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka