Rúnar: Of margir léku undir getu

Rúnar og félagar þurftu að horfa upp á FH-inga fagna …
Rúnar og félagar þurftu að horfa upp á FH-inga fagna bikarmeistaratitlinum í kvöld. mbl.is/Ómar

„Dómarinn gaf þeim tvö víti í fyrri hálfleik,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR ósáttur eftir að liðið tapaði 4:0 fyrir FH í úrslitaleik VISA-bikars karla í knattspyrnu í kvöld.

FH komst í 2:0 í fyrri hálfleiknum með mörkum úr vítaspyrnum.

„Mér sýndist þetta alla vega vera rangir dómar. Í fyrra skiptið tók hann sér mjög langan umhugsunarfrest sem er afar óskiljanlegt, og mér fannst þetta mjög lítil snerting. En það getur líka verið að þetta hafi bara verið klaufalegt brot hjá mínum leikmanni. Svo flaggaði línuvörðurinn á hendi í seinna tilvikinu en svona atriðum hefur oft verið sleppt í sumar þannig að ég skil ekki af hverju er verið að dæma á þetta núna.

Það er erfitt að fara í leikhléið 2:0 undir gegn liði eins og FH en við reyndum að taka sénsa með því að fækka í vörninni sem gekk ekki upp og þeir skoruðu tvö mörk í viðbót,“ sagði Rúnar.

„Þangað til að þeir skoruðu fyrsta markið vorum við ef eitthvað er búnir að fá betri færi í leiknum en það er alltaf hægt að segja svona. Mér finnst svona þegar ég lít til baka að það hafi verið allt of mikið af misheppnuðum sendingum hjá KR-liðinu. Of margir leikmenn léku undir getu og það munar miklu um það gegn FH,“ bætti hann við.

Rúnar tók við KR-liðinu í sumar í erfiðri stöðu í Pepsideildinni en þar á liðið enn möguleika á að komast í Evrópusæti. Rúnar vill því ekki meina að sumarið sé orðið sumar vonbrigða þrátt fyrir tapið í dag.

„Nei alls ekki. Það er fullt eftir af Íslandsmótinu og þó að við höfum tapað þessum leik erum við á góðu skriði í deildinni og ætlum okkur þar að ná Evrópusæti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert