Andri Ólafsson fyrirliði ÍBV segir að Eyjamenn séu klárir í slaginn og muni berjast til síðasta manns en sannkallaður stórleikur fer fram á Kópavogsvelli í kvöld þegar tvö efstu lið Pepsi-deildarinnar, Breiðablik og ÍBV, leiða saman hesta sína. Eyjamenn tróna á toppi deildarinnar. Þeir hafa 32 stig, Breiðablik er í öðru sæti með 30 og FH-ingar í því þriðja með 26 stig.
,,Þetta er sennilega einn af úrslitaleikjum mótsins en þrátt fyrir það förum við í þennan leik eins og hvern annan. Það er óþarfi að vera að byggja upp einhverja spennu. Við vitum vel að með sigri í kvöld komum við okkur í þægilega stöðu og við erum svo sannarlega klárir í slaginn,“ sagði Andri við mbl.is.
Eyjamenn mættu til lands í gær og eyddu nóttinni saman á hóteli í Reykjavík en stuðningsmenn ÍBV-liðsins verða eflaust margir í kvöld en ákveðið var að koma upp aukaferð með Herjólfi.
Andri segist gera sér grein fyrir því að Blikarnir eru með hörkugott lið.
,,Við þurfum að vera vel á tánum í kvöld. Blikarnir eru með frábært sóknarlið og það er því mikilvægt fyrir okkur að vera skipulagðir í vörninni,“ sagði Andri, en Blikarnir hafa skorað flest mörk allra í deildinni en Eyjamenn hafa fengið fæst mörk á sig.
,,Við höfum fengið á okkur fimm mörk í síðustu tveimur leikjum og við verðum að stoppa í þessi göt og spila vörnina eins vel og við höfum gert í mest allt sumar. Það þýðir víst ekki annað á móti Blikunum en vera vel vakandi í varnarleiknum,“ sagði Andri.
Eyjamenn geta teflt fram sínum sterkasta liði að því undanskildu að úkraínski sóknarmaðurinn Denis Sytnik tekur út leikbann.