Mbl.is hefur borist yfirlýsing frá fjórmenningunum sem létu af stjórnarsetu hjá knattspyrnudeild Vals í dag. Þar segir meðal annars að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli stjórnar knattspyrnudeildar og aðalstjórnar félagsins.
Yfirlýsingin:
Yfirlýsing frá stjórnarmönnum knattspyrnudeildar Vals:
Reykjavík, 27. ágúst 2010.
Við undirritaðir stjórnarmenn knattspyrnudeildar Vals höfum ákveðið að segja af okkur stjórnarmennsku þar sem trúnaðarbrestur hefur orðið á milli stjórnar knattspyrnudeildar Vals og aðalstjórnar félagsins.
Við höfum unnið að heilindum síðan við tókum sæti í stjórn knattspyrnudeildar Vals árið 2003 þegar meistaraflokkur karla lék í fyrstu deild. Með miklu og samstilltu átaki tókst að byggja upp öfluga knattspyrnudeild sem hefur náð frábærum árangri á síðustu árum bæði í karla- og kvennaflokki.
Innan félagsins hefur hins vegar ýmislegt gengið á undanfarin misseri. Ákveðnir einstaklingar, sem við töldum samherja okkar, hafa gert okkur erfitt um vik við áframhaldandi uppbyggingu knattspyrnudeildarinnar. Þeir hafa að vissu leyti tekið yfir stjórnarstörf okkar sem erum þó lýðræðiskjörnir stjórnarmenn. Við teljum að slík vinnubrögð séu knattspyrnufélaginu Val ekki til framdráttar og höfum því ákveðið að stíga til hliðar til að skapa frið um störf félagsins.
Á þessum tímamótum langar okkur að þakka þeim fjölmörgu Valsmönnum sem hafa starfað með okkur og félaginu að því mikla uppbyggingarferli sem hefur átt sér stað undanfarin ár innan knattspyrnudeildarinnar. Við erum afar stoltir að hafa byggt upp sterkasta meistaraflokk kvenna í sögu félagsins og þökkum bæði fyrrverandi og núverandi þjálfurum þeim, Elísabetu Gunnarsdóttur og Frey Alexanderssyni fyrir frábært samstarf. Við erum einnig þakklátir Willum Þór Þórssyni sem þjálfaði meistaraflokk karla þegar Valur varð bikarmeistari 2005 og Íslandsmeistari 2007. Við þökkum einnig núverandi þjálfarateymum meistaraflokks karla og kvenna fyrir samstarfið, þeim Frey Alexanderssyni, Þórði Jenssyni, Orra Sigurðssyni og Ragnheiði Jónsdóttur hjá kvennaliðinu og þeim James Bett, Friðriki E. Jónssyni, Birni Zoega, Sævari Gunnleifssyni og Halldóri Eyþórssyni hjá karlaliðinu. Að endingu viljum við þakka leikmönnum kvenna- og karlaliðs Vals í knattspyrnu fyrir frábært samstarf og hvetjum liðin áfram til árangurs.
Með miklu átaki hefur tekist að gera Val að stórveldi í íslenskri knattspyrnu á nýjan leik, félagi sem hefur unnið marga titla á undanförnum árum bæði í karla- og kvennaflokki.
Við erum og verðum alltaf Valsmenn og dyggir stuðningsmenn félagsins.
Áfram Valur!
Virðingafyllst
E. Börkur Edvardsson
Jón Grétar Jónsson
Bragi G. Bragason
Jón Höskuldsson