,,Við sýndum mikla seiglu og ég er afar ánægður með sigurinn. Við áttum svolítið á brattann að sækja í seinni hálfleik en við náðum að þjappa okkur saman og knýja fram afar sætan sigur," sagði Jón Guðni Fjóluson leikmaður Fram við mbl.is. eftir sigurinn á Stjörnunni í kvöld.
Jón Guðni jafnaði metin í 2:2 en skömmu áður hafði hann átt þrumuskot úr aukaspyrnu af um 30 metra færi.
,,Ég hefði viljað sjá hann inni en því miður fór svo ekki. Það var því afar gleðilegt að ná að skora skömmu síðar og ekki var síður gleðilegt þegar Ívar skoraði,“ sagði Jón Guðni sem var færður inn á miðjuna þegar Stjarnan komst yfir í seinni hálfleik.
,,Ég er gamall framherji svo mér leiðist ekkert að spila framar á vellinum. Nú er málið að enda mótið með sæmd. Við erum búnir að vinna tvo leiki í röð eftir dapurt gengi en nú liggur leiðin bara upp á við hjá okkur,“ sagði Jón Guðni.
Jón Guðni var til skoðunar hjá hollenska liðinu PSV á dögunum og spurður út í þau mál sagði hann; ,,Ég hef ekkert heyrt frá liðinu og það verður bara að koma í ljós hvert framhaldið verður. Á meðan einbeiti ég mér bara að því að spila með Fram.“