FH með gott tak á KR í Frostaskjólinu

Atli Viðar Björnsson og Grétar Sigfinnur Sigurðarson verða í eldlínunni …
Atli Viðar Björnsson og Grétar Sigfinnur Sigurðarson verða í eldlínunni á KR-vellinum í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það verður sannkallaður risaslagur á KR vellinum í kvöld þegar KR-ingar taka á móti Íslandsmeisturum FH-inga í Pepsi-deildinni. Hvorugt lið má við því að tapa stigum en liðin eru harðri í baráttu við ÍBV og Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn.

Leikurinn í Frostaskjólinu í kvöld verður 50. deildarleikur KR og FH en liðin mættust fyrst árið 1975 í Kaplakrika þar sem Ólafur Danívalsson tryggði FH-ingum 1:0 sigur.

FH-ingar hafa haft gott tak á KR-ingum og þá einkum og sér í lagi hin síðari ár. Í 49 deildarleikjum liðanna hefur FH unnið 25 leiki, KR 13 en 11 leikjum hefur lyktað með jafntefli.

FH-ingum hefur gengið sérlega vel á KR-vellinum. Þeir hafa unnið síðustu sex rimmur liðanna í vesturbænum. Í fyrra hafði Hafnarfjarðarliðið betur, 2:1, og skoraði Atli Viðar Björnsson sigurmarkið skömmu fyrir leikslok. Í 19 leikjum KR og FH á KR-vellinum hefur FH unnið 10 leiki, KR 6 og jafnteflin eru 3.

KR-ingar eiga svo sannarlega harma að hefna. Þeir steinlágu, 4:0, fyrir FH-ingum í úrslitaleik bikarkeppninnar á dögunum og í fyrri leik liðanna í Pepsi-deildinni höfðu FH-ingar betur, 3:2.

Leikur liðanna hefst klukkan 18 og sama tíma mætast á Selfyssingar og Valsmenn á Selfossi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert