ÍBV hefur unnið sér sæti í úrvalsdeild kvenna, Pepsi-deildinni, á nýjan leik en félagið átti síðast lið í deildinni sumarið 2005. ÍBV vann í kvöld Keflavík, 4:1, á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í síðari leik liðanna um sæti í úrvalsdeildinni. ÍBV vann fyrri viðureign liðanna, 4:0, og liðið var því komið með annan fótinn upp í deildina fyrir leikinn.
Edda Birgisdóttir skoraði tvö marka ÍBV í kvöld. Hið fyrra á 9. mínútu en það síðara á þeirri 36. Kristín Erna Sigurlásdóttir og Lerato Kgasago skoruðu eitt mark hvor. Nína Ósk Kristinsdóttir skoraði mark Keflavíkurliðsins.
Þróttur Reykjavík og Selfoss eigast þessa stundina við í síðari viðureign sinni þar sem skorið verður úr hvort liðið fylgir ÍBV upp í úrvalsdeild á næstu leiktíð. Fyrri viðureign Þróttar og Selfoss lauk með jafntefli, 1:1.