Heil umferð fer fram í úrvalsdeild kvenna í dag, Pepsí-deildinni, en um er að ræða 16. umferð af alls 18. Fjórir leikir hófust kl. 14 en leikur Aftureldingar og Vals hefst kl. 17. Valur er með pálmann í höndunum og getur orðið meistari með sigri í Mosfellsbænum því bæði Breiðablik og Þór/KA töpuðu sínum leikjum. Mikil spenna er einnig í fallbaráttunni og nú munar aðeins tveimur stigum á Grindavík og FH. Fylgst var með gangi mála í leikjum dagsins á mbl.is.
15:57 Mark!! Þvílík dramatík á lokamínútunum í Grindavík þar sem heimaleiðinu tókst að jafna 2:2 með tveimur mörkum í uppbótartíma. Shaneka Gordon og Rachel Furness skoruðu mörkin og í kjölfarið fékk María Arngrímsdóttir sitt annað gula spjald hjá Grindavík og þar með rautt.
15:46 Mark!! Inga Birna Friðjónsdóttir var að skora fyrir Stjörnuna á 88. mínútu. Inga skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu.
15:39 Mark!! Spennan er að aukast til mikilla muna í fallbaráttunni. Haukar voru að bæta við öðru marki í Grindavík. Eva Jenný Þorsteinsdóttir skoraði með þrumuskoti á 76. mínútu.
15:36 Mark!! Mateja Zver var að jafna leikinn fyrir Þór/KA gegn Stjörnunni úr vítaspyrnu á 78. mínútu. Örugg spyrna hjá Zver þó Sandra hafi farið í rétt horn. Rakel Hönnudóttir fékk vítið eftir að hafa náð valdi á stungusendingu með frábærri fyrstu snertingu.
15:27 Mark!! Þór/KA og Breiðablik eru bæði undir í sínum leikjum. Katie McCoy var að skora fyrir Stjörnuna úr vítaspyrnu sem Inga Birna Friðjónsdóttir fékk. Katie skoraði af miklu öryggi á 69. mínútu.
15:22 Mark!! Nú berast heldur betur tíðindi úr Hafnafirðinum. FH hefur snúið blaðinu við gegn Breiðabliki og er yfir 3:2. Sigríður Guðmundsdóttir jafnaði leikinn úr vítaspyrnu og Liliana Martins bætti við þriðja markinu. Eins og staðan er núna í leikjum dagsins eru Valskonur með pálmann í höndunum og geta orðið meistarar í Mosfellsbænum í dag. Eins á FH von um að halda sér uppi því Grindavík er undir gegn Haukum á heimavelli.
15:21 Mark!! Fylkir hefur jafnað í Vesturbænum. Það gerði markadrottningin Anna Björg Björnsdóttir á 52. mínútu.
14:50 Mark!! Botnlið Hauka er komið yfir í Grindavík. Sara Jordan skoraði á markamínútunni 43. með þrumuskoti.
14:39 Mark!! Stjarnan hefur jafnað gegn Þór/KA 1:1. Markið lá í loftinu en Stjörnukonur höfðu tvívegis verið aðgangsharðar upp við mark Þórs/KA eftir að gestirnir komust yfir. Inga Birna Friðjónsdóttir sendi fyrir markið frá hægri og Rachel Rapinoe skaut í slána en Soffía Gunnarsdóttir fylgdi á eftir og skallaði knöttinn í netið.
14:32 Mark!! FH tókst að jafna gegn Breiðabliki 1:1 en Blikar náðu aftur forystunni og eru yfir 2:1. Sigrún Ella Einarsdóttir jafnaði fyrir FH á 24. mínútu en Jóna Kristín Hauksdóttir svaraði fyrir Breiðablik á 28. mínútu.
14:26 Mark!! Í Frostaskjóli er komið mark hjá KR og Fylki. Katrín Ásbjörnsdóttir kom KR yfir á 23. mínútu.
14:23 Mark!! Breiðablik hefur tekist að brjóta ísinn gegn FH. Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði á 15. mínútu.
14:15 Mark!! Akureyringar hafa náð forskoti í Garðabænum. Mateja Zver slapp ein inn fyrir vörn Stjörnunnar og var rétt á undan Söndru Sigurðardóttur markverði Stjörnunnar í boltann en Sandra var komin út úr vítateignum. Zver setti boltann snyrtilega á milli fóta Söndru og lék inn í vítateiginn. Þar voru þrír varnarmenn Stjörnunnar búnar að koma sér fyrir en Zver náði að lauma boltanum neðst í hægra hornið. Afar snyrtilega gert.
14:14 Vesna Smilkojvic fór rétt í þessu illa með algert dauðafæri fyrir Þór/KA gegn Stjörnunni í Garðabænum. Rakel komst í færi hægra megin í teignum en í stað þess að skjóta sendi hún frábæra sendingu fyrir markið á Smilkojvic sem þurfti bara að koma boltanum í opið markið en hitti ekki markið.
14:05 Í Garðabænum er hífandi rok og aðstæður mjög erfiðar fyrir leikmenn sem eiga fullt í fangi með að hemja boltann á gervigrasinu.
Grindavík – Haukar 2:2 - Leik lokið
- Sara Jordan 43., Eva Jenný Þorsteinsdóttir 76.
KR – Fylkir 1:1 - Leik lokið
Katrín Ásbjörnsdóttir 23. - Anna Björg Björnsdóttir 52.
FH – Breiðablik 3:2 - Leik lokið
Sigrún Ella Einarsdóttir 24., Sigríður Guðmundsdóttir (víti), Liliana Martins - Sara Björk Gunnarsdóttir 15., Jóna Kristín Hauksdóttir 28.
Stjarnan – Þór/KA 3:2 - Leik lokið
Soffía Gunnarsdóttir 37., Katie McCoy 69. (víti), Inga Birna Friðjónsdóttir 88. - Mateja Zver 15. , 78. (víti).
Afturelding – Valur kl 17:00
1. Valur 36 stig
2. Breiðablik 32 stig
3. Þór/KA 31 stig
4. Stjarnan 25 stig
5. Fylkir 23 stig
6. KR 22 stig
7. Afturelding 16 stig
8. Grindavík 14 stig
9. FH 10 stig
10. Haukar 5 stig