Gunnlaugur Jónsson kveðst að öllu óbreyttu tilbúinn til að halda áfram sem þjálfari knattspyrnuliðs Vals en hann eigi þó eftir að ræða nánar við stjórn félagsins á næstu dögum áður en það verði endanlega ljóst hvort hann stýri því áfram.
Gunnlaugur samdi við Val til þriggja ára síðasta vetur en í lok ágúst voru blikur á lofti og Börkur Eðvarðsson formaður knattspyrnudeildar Vals sagði af sér eftir dálítið fjölmiðlafár, ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum, en Gunnlaugur hélt áfram með liðið til loka tímabilsins.
Valur vann í kjölfarið tvo leiki en tapaði síðan þremur síðustu leikjum sínum í deildinni, síðast 1:2 gegn Haukum á Hlíðarenda í dag, og endaði í 7. sætinu með 28 stig.
"Við náðum ekki að halda fullum dampi út tímabilið og það eru nokkur vonbrigði. Við fengum ákveðinn séns á að gera atlögu að fimmta sætinu fyrir næstsíðustu umferðina en náðum ekki sigri þar. Þrátt fyrir ágætis tilþrif í seinni hálfleiknum í dag er þetta niðurstaðan og hún er ekki ásættanleg. Ég tel samt að það hafi fyrirfram verið raunhæft að Valur yrði á bilinu fimmta til sjöunda sæti þetta árið, þegar tekið er tillit til allra þeirra breytinga sem hafa verið hér á Hlíðarenda síðustu árin," sagði Gunnlaugur við mbl.is eftir leikinn.
"Mótið er þannig að það er stutt í báða enda og það var inni í stöðunni að gera atlögu að Evrópusæti. Við eygðum það nokkrum sinnum í sumar en í það heila vantaði okkur meiri stöðugleika. Í dag vantaði fimm fastamenn en samt sýndum við ágætis tilburði og það var sérstaklega að sjá Matthías Guðmundsson mjög lifandi í seinni hálfleiknum. Það er góðs viti fyrir Valsmenn að hann sé kominn á skrið aftur þó seint sé. Við hefðum virkilega notið góðs af því að hafa hann kláran fyrr í sumar en hann hefur glímt við meiðsli síðan í febrúar og það er heilmikið þegar leikmaður er kominn á þennan aldur. Hann er samt ferskur og gerði meira í lokin en við þorðum að vona fyrir mánuði síðan. Það er allavega jákvætt," sagði Gunnlaugur.
Nú er mótið búið, hvernig er þá þín staða á Hlíðarenda? Hefur framhaldið hjá þér verið rætt í kjölfarið á þeim hasar sem varð í kringum þig fyrir nokkrum vikum?
"Já, við höfum sest niður og rætt málin undanfarið en ég vildi fyrst og fremst klára tímabilið svo við gætum þá farið yfir allt saman og horft fram á við, og gengið frá því hvernig framhaldið verið. Staðan er því óviss í augnablikinu, það er ekki endanlega frá því gengið hvort ég verði áfram með liðið þó jákvæðar viðræður hafi átt sér stað. Það verður bara að koma í ljós, við setjumst örugglega niður fljótlega og svo skýrists það vonandi á nokkrum dögum."
En þú ert þá sem sagt tilbúinn til að halda áfram með Valsliðið?
"Já, ég er tilbúinn til þess en þarf aftur á móti að ræða ýmsa hluti og ég er því ekki tilbúinn til að segja þér á þessari stundu hvað verður. Það er búið að ganga það mikið á að mér finnst eðlilegt að menn ræði málin vel áður en gengið er frá einhverju meira," sagði Gunnlaugur Jónsson.