„Það var markmiðið að vinna leikinn og skora einhver mörk, skort hefur á það hjá okkur í sumar. Þó það væri ekki mikið undir í þessum leik vildum við sýna áhorfendum að við gætum spilað góðan fótbolta, og það tókst," segir Rúnar Kristinsson um sigur liðsins gegn Fylki í dag. KR-ingar fóru með 3:0 sigur af hólmi með mörkum frá Agli Jónssyni, Guðjóni Baldvinssyni og Baldri Sigurðssyni.
Sem kunnugt er byrjuðu KR-ingar tímabilið afar illa og spiluðu sig fljótt úr toppbaráttunni í Pepsí-deildinni. „En við gáfum okkur annan séns á að blanda okkur í toppbaráttuna," segir Rúnar. „Til þess að sigra deildina hefðum við þurft að sigra alla okkar leiki sem eftir voru, þegar ég tók við. Ef við hefðum gert það hefðum við endað með 46 stig, og Blikar eru að vinna mótið á 46 stigum. Við töpum heima á móti FH í einum af mörgum úrslitaleikjum sem við spiluðum undir lok tímabils. Við náðum ekki klára þann leik þrátt fyrir að vera betri. Á móti Blikum vorum við ekki nægilega sterkir og þeir unnu verðskuldað. En svona er þetta," segir hann.
Inntur eftir því hvort hann haldi áfram sem þjálfari KR-inga á næsta tímabili svarar Rúnar: „Við höfum farið yfir þetta nokkrum sinnum, ég og stjórnarformaðurinn. Að sama skapi hef ég átt samtöl við einstaka stjórnarmenn. Ég hef áhuga á að taka við liðinu en ég hef líka áhuga á því að hverfa til fyrri starfa. Þetta er eitthvað sem verður rætt innan félagsins," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.