Færeyskur landsliðsmaður í Val (myndskeið)

Pól Jóhannus Justinussen, til hægri, í leik með B68.
Pól Jóhannus Justinussen, til hægri, í leik með B68. www.b68.fo

Pól Jóhannus Justinussen, leikmaður færeyska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, gengur til liðs við Valsmenn og semur við þá til tveggja ára en hann kemur frá B68 í Tóftum.

Frá þessu var skýrt á vef B68 í dag og þar kom fram að þetta hefði verið kunngjört á árshátíð félagsins á laugardagskvöldið þar sem Pól hefði verið kvaddur með virktum.

Pól er 21 árs gamall vinstri bakvörður sem einnig getur spilað á miðjunni. Hann er mjög marksækinn og skoraði 11 mörk í 29 leikjum B68 á nýliðnu keppnistímabili í Færeyjum.

Hann var í lykilhlutverki í færeyska 21-árs landsliðinu sem kom geysilega á óvart í nýlokinni undankeppni Evrópumótsins og hefur verið í A-hópi Færeyinga á þessu ári.

Landi hans, Christian Mouritsen frá B36, kemur einnig til Vals en til reynslu. Hann er 22 ára framherji, fyrirliði 21-árs landsliðsins, og hefur spilað 6 A-landsleiki.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá Pól skora mark fyrir B68 í deildaleik í Færeyjum. Hann er númer 2 og skorar markið þegar 18 sekúndur eru búnar af myndskeiðinu:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert