Lokeren kaupir Alfreð Finnbogason

Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Belgíska knattspyrnufélagið Lokeren hefur náð samkomulagi við Íslandsmeistara Breiðabliks um kaup á Alfreð Finnbogasyni, besta leikmanni Íslandsmótsins 2010, en frá því var gengið rétt í þessu.

Alfreð fer nú í læknisskoðun hjá belgíska félaginu og skrifar undir samning í kjölfarið. Hann er 21 árs gamall og var einn af þremur markahæstu leikmönnum úrvalsdeildarinnar í sumar með 14 mörk og var í lykilhlutverki í liði Breiðabliks sem varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti. Alfreð lék sinn fyrsta A-landsleik á árinu og spilaði með 21-árs landsliðinu þar sem hann skoraði bæði gegn Þjóðverjum og Tékkum.

Lokeren hefur mikla reynslu af íslenskum leikmönnum en Arnór Guðjohnsen hóf þar atvinnuferilinn árið 1978 og lék með félaginu í fimm ár. Arnar Þór Viðarsson kom til félagins 1997 og var þar í níu ár, seinni árin sem fyrirliði liðsins. Rúnar Kristinsson og Arnar Grétarsson léku með liðinu á árunum 2000 til 2007 og Auðun Helgason tvö fyrstu árin með þeim. Marel Baldvinsson spilaði með Lokeren frá 2003 til 2006 og Davíð Þór Viðarsson lék með liðinu um skeið árið 2006.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert