Knattspyrnudeild ÍBV samdi í dag að nýju við enska varnarmanninn Matt Garner um að leika með liðinu út komandi keppnistímabil. Frá þessu var greint á vef Eyjafrétta nú síðdegis.
Garner hefur leikið með Eyjamönnum frá 2004, að einu ári undanskildu, en hann kom upphaflega til þeirra frá enska félaginu Crewe. Hann leikur sem vinstri bakvörður og hefur alls spilað 109 leiki með ÍBV og skorað fjögur mörk en Garner var fyrirliði Eyjamanna tímabilið 2009.
Í úrvalsdeildinni hefur hann spilað 66 leiki og skorað í þeim 2 mörk.
Í Eyjafréttum kemur fram að Garner sé frá keppni sem stendur vegna meiðsla á ökkla en hann hafi farið í aðgerð eftir síðasta tímabil. Hann verði því ekki með liðinu í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins en ÍBV mætir þar Keflavík í Kórnum á laugardaginn kemur.