Knattspyrnumaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson var sáttur eftir að hafa skrifað undir 4 ára samning við uppeldisfélag sitt ÍBV rétt fyrir hádegi í dag. Í samtali við Mbl.is sagði Gunnar að hann væri ánægður með þessa ákvörðun og að hún hafi verið tekin með fjölskylduna í huga. Gunnar Heiðar sem verður 29 ára gamall í apríl er ÍBV mikill liðstyrkur fyrir baráttuna í Pepsi-deildinni.
Þá sagði Gunnar að hann vonaðist til þess að gera barnið sem unnusta hans gengur nú með, að alvöru Eyjamanni. Þrátt fyrir að gera 4 ára samning útilokar Gunnar ekki að fara í atvinnumennskuna aftur en segist þó ætla einbeita sér að því að ná góðum árangri með ÍBV í sumar.
Gunnar Heiðar segist hafa fylgst vel með gengi liðsins í fyrra og honum hafi þótt það jákvætt hvernig allt bæjarfélagið tók þátt í þessu og að gleðin hafi greinilega verið mikil síðasta sumar. Hann vonast að sjálfsögðu eftir áframhaldi á því. Stefnan sé tekin á að bæta árangurinn frá því í fyrra sem var þriðja sætið á Íslandsmótinu. Það þýðir fyrsta eða annað sætið.
Búið er að taka í notkun nýtt og glæsilegt knattspyrnuhús í Vestmannaeyjum og segir Gunnar aðstöðuna þar vera frábæra. Það sé annað heldur en þegar hann var að æfa í roki og rigningu á gamla malarvellinum. Þá fór boltinn oft svo langt í burtu að þegar búið var að ná í boltann var æfingunni passlega lokið.