Pape með tvö gegn Eyjamönnum

Pape Mamadou Faye skoraði tvö í kvöld.
Pape Mamadou Faye skoraði tvö í kvöld. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Leiknir úr Reykjavík kom á óvart í kvöld og lagði ÍBV að velli, 3:1, í deildabikar karla í fótbolta, Lengjubikarnum, þegar liðin mættust í Egilshöllinni í kvöld.

Pape Mamadou Faye, framherjinn ungi sem Leiknismenn fengu frá Fylki í vetur, reyndist Eyjamönnum erfiður en hann skoraði tvö fyrri marka þeirra, á 22. og 72. mínútu. Tryggvi Guðmundsson jafnaði fyrir ÍBV fimm mínútum fyrir hlé.

Eiður Aron Sigurbjörnsson miðvörður ÍBV var rekinn af velli þegar korter var eftir af leiknum. Breiðhyltingar voru fljótir að nýta sér það því þremur mínútum síðar skoraði Ólafur H. Kristjánsson og gulltryggði sigur þeirra, 3:1.

Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV var fjarri góðu gamni en hann dvelur þessa dagana í Arizona í Bandaríkjunum, í æfingabúðum hjá Vancouver Whitecaps, liði Teits Þórðarsonar. Dragan Kazic, aðstoðarþjálfari, stýrði Eyjamönnum í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert