„Ég er handarbrotinn og þarf líklegast að fara í aðgerð, en ég vona að ég geti byrjað að spila sem fyrst,“ sagði Tryggvi Guðmundsson, leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is í morgun.
Tryggvi handarbrotnaði í 3:1 tapi ÍBV gegn Leikni í gærkvöldi. „Það eru tvær pípur á handarbakinu brotnar og ég þarf líklegast að fara í aðgerð til að setja pinna í þetta,“ sagði Tryggvi.
Hann er samt brattur og vonast til að geta spilað sem fyrst. „Ef ég fæ leyfi til að spila með gipsið á hendinni þá er ég tilbúinn í það núna strax. Mig langar rosalega að spila leikinn við Val eftir viku,“ sagði Tryggvi og er fullur bjartsýni á að hann verði ekki lengi frá knattspyrnunni vegna þessa.