„Vð stefndum að því að vinna þetta mót og nota það til að þjappa hópnum saman og gefa leikmönnunum ákveðna trú og sjálfstraust. Það gekk eftir þó þessi úrslitaleikur hafi ekki boðið upp á mörg marktækifæri frekar en margir leikjanna undanfarið,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Valsmanna, við Morgunblaðið.
Valur vann KR, 1:0, í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í Egilshöllinni í fyrrakvöld þar sem Guðjón Pétur Lýðsson skoraði sigurmarkið beint úr aukaspyrnu.
Kristján tók við Valsliðinu í fyrrahaust eftir að hafa þjálfað HB í Færeyjum í tæpt ár en honum var sagt upp störfum þar í september. Þar á undan stýrði hann Keflvíkingum í fimm ár. Hann kvaðst mjög ánægður með að vera kominn á fulla ferð í íslenska fótboltanum á ný.
„Við erum ánægðir með hópinn, strákarnir hafa brugðist vel við æfingaáætluninni og eru samhentir í að láta þetta ganga vel. Það er gríðarlega gaman að vinna með þessum strákum, hreinlega nýtt líf fyrir mig,“ sagði Kristján.
Sjá nánar viðtal við Kristján í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.