Gunnar Heiðar Þorvaldsson, knattspyrnumaður frá Vestmannaeyjum, skoraði eitt mark og lagði upp tvö fyrir sænska úrvalsdeildarliðið Norrköping í gær. Liðið vann þá sigur, 5:0, á varaliði spænska félagsins Real Mallorca en Gunnar er í æfingabúðum með Svíunum á Mallorca og dvelur þar með þeim til þriðjudags.
Gunnar gekk til liðs við ÍBV á dögunum eftir sex ár erlendis. Ólafur Garðarsson umboðsmaður staðfesti við Morgunblaðið í gær að Norrköping hefði mikinn áhuga á að fá Gunnar í sínar raðir. „Það er hins vegar að mörgu að hyggja fyrir Gunnar því hann er nýfluttur heim og kona hans á von á barni. Hann þarf því gott boð til að þau rífi sig upp á ný og fari til Svíþjóðar,“ sagði Ólafur.
Þess má geta að þjálfari Norrköping er sá sami og þjálfaði Halmstad þegar Gunnar Heiðar lék með liðinu árið 2005 og varð markakóngur sænsku úrvalsdeildarinnar. vs@mbl.is