Yfirlýsing frá Jóhannesi Valgeirssyni

Jóhannes Valgeirsson.
Jóhannes Valgeirsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhannes Valgeirsson, knattspyrnudómari frá Akureyri, hefur sent mbl.is yfirlýsingu en í henni svarar hann yfirlýsingu frá Gylfa Þór Orrasyni, formanni dómaranefndar KSÍ.

Vegna yfirlýsingar Gylfa Þórs Orrasonar, formanns dómaranefndar KSÍ, í fjölmiðlum í febrúar, um að undirritaður hefði sagt starfi sínu lausu með formlegum hætti finnst mér rétt og skylt að eftirfarandi komi fram: Ég hef ekki með  formlegum hætti sagt upp starfi því sem ég hef gegnt hjá KSÍ í 18 ár. Þetta hef ég ítrekað reynt að leiðrétta á undanförnum vikum en komið að lokuðum dyrum. Allt þetta er byggt á samtali í síma við Birki Sveinsson mótastjóra KSÍ og starfsmann dómaranefndar. Þar lýsti ég fyrir honum í löngu máli hvaða upplifun ég hefði af þróun mála að undanförnu og ef það væri stemmingin að bola mér út og enginn vildi ræða það, þá væri eflaust rétt að ég léti það eftir mönnum. Hið rétta er að dómaranefnd KSÍ, með Gylfa Þór í fararbroddi, hefur með mjög svo furðulegum og andstyggilegum hætti bolað mér út. Skýringa hef ég ítrekað leitað en algerlega án árangurs. Jú, mér hefur verið sagt að um samstarfserfiðleika sé að ræða en við slíkt kannast ég ekki.

Ég veit hins vegar að síðsumars 2010 var ég verðlaunaður fyrir vel unnin störf með því að fá að dæma vináttuleik U21 landsliða í Danmörku, sem var mikill heiður fyrir mig, ekki síst þar sem ég var á þeim tíma ekki lengur milliríkjadómari FIFA. Í liðnum nóvembermánuði var ég síðan beðinn af dómaranefndarmönnum, sem geta ekki unnið með mér vegna samstarfsörðugleika, að halda fyrirlestur á dómararáðstefnu um starf varadómara (fjórða dómara). Nefndarmenn klöppuð mér á bakið og þökkuðu hversu vel tókst til. Síðan þá hef ég ekki haft nein samskipti við þessa menn í dómaranefnd, fyrir utan það að í desember ræddi ég í nokkrar mínútur við Gylfa formann vegna annars máls.

Hvers vegna þá þessi sinnaskipti? Því miður veit ég það ekki. Ég fæ engan veginn séð að ég hafi brotið af mér með þeim hætti að ég verðskuldi að mér sé sparkað án fyrirvara, án skýringa og án þess að menn svo mikið sem reyni að upplýsa mig um hvað þeim í ósköpunum gangi til. Ég á skilið aðra meðferð eftir öll þessi ár í vinnu fyrir KSÍ og knattspyrnuhreyfingin hlýtur að eiga rétt á því að vita hvers vegna einum fremsta knattspyrnudómara á Íslandi til margra ára er kastað á dyr. Enginn á skilið framkomu af þessu tagi og ef þetta snýst um persónulegt mat manna á því að ég sé ekki nógu skemmtilegur eða að ekki megi gagnrýna starf dómaranefndar KSÍ, því það hef ég að vísu gert, þykir mér það aum ástæða fyrir svo forkastanlegri framkomu sem raun ber vitni, þá daga sem liðnir eru frá yfirlýsingu Gylfa Þórs um að ég væri hættur að dæma, að fyrir lægi formleg uppsögn frá mér. Svo mikið hef ég reynt að fá svör, svo mikið hef ég setið á mér þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir fjölmiðlamanna og annarra úr knattspyrnuhreyfingunni liðnar vikur. Nú er rétt að kalla opinberlega eftir skýringum frá dómaranefnd, því segi þeir satt og rétt frá okkar samskiptum þolir mín persóna og mitt mannorð að þær skýringar komi fram í dagsljósið.

Ég lít svo á að ég hafi átt flekklausan og farsælan feril sem starfsmaður KSÍ þessi 18 ár. Með aukinni reynslu og þrotlausri vinnu tel ég mig hafa unnið mér sess sem einn af bestu dómurum sem Ísland hefur átt. Ég hef verið gagnrýninn og ég hef ekki alltaf verið sáttur við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Ég hef gert mistök, hlaupið og á mig og þurft að biðjast afsökunar. Er það brottrekstrarsök að vera gagnrýninn? Er það brottrekstrarsök að bregðast ekki vel við því að vera tekinn af lista þeirra sem dæma fyrir Íslands hönd í Evrópu, þegar einkunnir og frammistaða gefa tilefni til annars? Þar fyrir utan fékk ég mikið hrós frá dómaranefndarmönnum fyrir að setja undir mig hausinn, bíta í tunguna á mér og æfa og dæma sem aldrei fyrr. Er brottrekstrarsök að hafa fullan metnað til að halda áfram, segja meiningu sína af því að menn trúa að þeir séu að segja og gera rétt? Ef það er raunin, hefði þá ekki verið heiðarlegra af forystu dómaramála að stíga fram, kalla til fundar, setja ofan í við menn, veita jafnvel viðvaranir, gefa mönnum orð í eyra. Ekkert slíkt hefur átt sér stað. Getur verið að klíkan sé orðin svo mikil og að menn upplifi sig sem einhvers konar mafíuforingja í sínum fílabeinsturni, að sá sem gagnrýni verði að fara á höggstokkinn? Þá er illt í efni.

Það er og hefur verið mitt líf og yndi að starfa innan knattspyrnuhreyfingarinnar.  Frá því á miðju sumri 1992 hef ég lagt allt sem ég hef átt til að ná árangri sem knattspyrnudómari. Frá fyrsta degi, eftir að hafa lokið dómaraprófi hjá Rafni heitnum Hjaltalín, setti ég mér háleit markmið og ákvað ég að ég ætlaði mér að verða í fremstu röð á Íslandi í því að dæma knattspyrnu. Á sama tíma ákvað ég að ég ætlaði að láta gott af mér leiða í dómaramálum, innan sem utan vallar, samhliða mínum eigin dómaraferli. Þannig hefur þetta verið í þau 18 ár sem ég hef starfað fyrir KSÍ, oft við lítinn fögnuð fjölskyldunnar sem oftar en ekki hefur þurft að víkja fyrir dómgæslunni. Ég hef átt góð samskipti við félaga mína í dómgæslunni og vissi ekki annað en að sama gilti um forystu knattspyrnumálanna. Það er því með sorg í hjarta sem ég horfi á þá aðför sem að mér er gerð nú.

Eftir ítrekaðar tilraunir lofaði framkvæmdastjóri KSÍ,  Þórir Hákonarson, mér fundi þar sem ”reynt yrði að leysa málið”. Lausnin fólst í því ég ég sat einn á móti þrem dómaranefndarmönnum og Birki Sveinssyni starfsmanni dómaranefndar, framkvæmdastjórinn sem ætlaði að ganga í málið og ”leysa” lét ekki sjá sig. Það var allur viljinn til að leysa málið.

Með knattspyrnukveðju !

Jóhannes Valgeirsson

knattspyrnudómari 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka