Hannes Þ. Sigurðsson skrifaði í hádeginu undir samning við knattspyrnudeild FH út þetta keppnistímabil og er því kominn aftur til félagsins eftir tíu ára fjarveru erlendis. Undanfarin þrjú ár hefur hann leikið með Sundsvall í Svíþjóð.
Hannes, sem er 28 ára gamall sóknarmaður, sagði við mbl.is að það væri gott að koma heim í Kaplakrikann.
„Ég hlakka gríðarlega til sumarsins. Það hafa heldur betur orðið breytingar hjá öllu hjá FH, aðstaðan er orðin ótrúleg, til þvílíkrar fyrirmyndar, og hópurinn er sterkur, þannig að ég hlakka mikið til. Nú er titill í húsi á hverju ári og það verður gaman að taka þátt í því," sagði Hannes, sem er að jafna sig af meiðslum og vonast eftir því að vera tilbúinn í slaginn þegar Íslandsmótið hefst.
„Já, ég er búinn að vera meiddur síðan í nóvember og standið er eftir því, en ég er búinn að æfa síðustu sex vikurnar af fullum krafti. Það er að styttast í formið, mig vantar mikið uppá en ég hef mánuð til að koma mér í form."
Hann heldur síðan öllu opnu með að fara aftur erlendis þegar þessu tímabili lýkur. „Já, ég stefni á það, en við sjáum bara til. Nú einbeiti ég mér að þessu tímabili og við sjáum til hvað gerist eftir það."
Hannes vonast eftir því að vera í toppbaráttu með FH-ingum í sumar. „Ég hef ekki kynnst öðru í Krikanum en að það séu alltaf sömu markmið. Klúbburinn hefur verið duglegur að skila titlum í hús og ég geri ráð fyrir að það sé markmiðið, en það er ljóst að mörg lið eru með þessi sömu markmið, þannig að það verður ekki gengið að einu eða neinu."
Þegar Hannes var spurður um líklegustu keppinautana í sumar, svaraði hann: "Eftir því sem ég best veit, þá eru það líklega þessi klassísku, FH, KR, og jafnvel Valur, og Breiðablik vill að sjálfsögðu verja titilinn. Mér sýnist að KR-ingar verði gríðarlega sterkir og þetta verði kannski nokkuð þéttur hópur þarna uppi."
Hannes lék með Viking Stavanger í Noregi, Stoke í Englandi og Bröndby í Danmörku áður en hann fór til sænska liðsins Sundsvall þar sem hann hefur spilað undanfarin þrjú ár. Hann skoraði 26 mörk í 73 deildaleikjum fyrir Sundsvall, og samtals 47 mörk í 198 deildaleikjum með liðunum fjórum.