Ólafur: Ekki víst að 14 dagar séu nóg

Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks. mbl.is

Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks segir að ýmislegt þurfi að laga fyrir upphaf Íslandsmótsins í knattspyrnu en liðið tapaði í kvöld fyrir FH 3:0 í Meistarakeppni KSÍ. Blikar voru ólíklegir til að skora í leiknum og Gunnleifur Gunnleifsson markvörður FH átti náðugan dag.

„Það er margt sem ég hefði viljað sjá fara betur. Við vorum undir í baráttunni í fyrri hálfleik og vorum ekki að spila nógu vel út úr þeim stöðum sem við fengum í sókninni. Varnarlega vorum við í eltingaleik en það lagaðist í byrjun seinni hálfleiks.“

Annað mark FH skoraði Matthías Vilhjálmsson fyrirliði FH á 62. mínútu. „Það drap þennan leik og svo kláruðu þeir þetta með stæl. Það verður að viðurkennast að þeir voru betri í þessum leik og við í raun langt á eftir þeim.“

Ólafur veit að lið hans þarf að bæta sig fyrir fyrstu umferðina á Íslandsmótinu. „Ef við gerum ekkert og reynum ekki að vinna í okkar málum þá er það áhyggjuefni. Ef við reynum hinsvegar allt hvað við getum og finnum hvar við getum bætt okkur þá er von. Það er hlutverk mitt, þjálfaranna og liðsins að finna út úr því á næstu dögum fram að móti.“ 

En eru tvær vikur nægur tími? „Það er ekki víst að það sé nóg. Við munum hinsvegar gera okkar allra besta til að vera tilbúnir þegar mótið byrjar.“  

Líst illa á veðurfarið

„Við viljum að sjálfsögðu vinna alla leiki, niðurstaða leikja er afleiðing af því sem gerist í leikjunum. Við vorum hreinlega ekki nógu skarpir í vörn eða sókn. FH-ingarnir gerðu meira og það dugði þeim til sigurs, við verðum bara að sætta okkur við það núna.“

Spurður út í upphaf mótsins hafði Ólafur þetta að segja; „Mér líst illa á byrjunina veðurfarslega. Mér líst hinsvegar alltaf vel á upphaf mótsins og svo kemur það í ljós þá hvar við stöndum.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert