Nýliðar Víkings í Pepsi-deildinni í knattspyrnu fengu liðsstyrk í dag. Finnski miðjumaðurinn Denis Abdulahi hefur samþykkt að leika með liðinu en áður höfðu Víkingar náð samkomulagi við sænska liðið Örebro um lánssamning. Þetta kemur fram á vef stuðningsmanna Víkings, vikingur.net.
Lánssamningurinn gildir til 1.ágúst en Abdulahi hefur verið til reynslu hjá Víkingum síðustu vikurnar og fór með liðinu í æfingaferð til Spánar. Hann er verður 21 árs gamall í maí og á 35 leiki að baki með finnska liðinu Viikingit í næstefstu deild þar í landi. Þá er hann leikmaður með finnska 21-árs landsliðinu.
Abdulahi gekk til liðs við Örebro í lok júlí á síðasta ári og spilaði þrjá leiki með liðinu í sænsku úrvalsdeildinni um haustið.