Annar 5:0 sigur Eyjakvenna

Kristín Erna Sigurlásdóttir kemur ÍBV yfir í leiknum í kvöld.
Kristín Erna Sigurlásdóttir kemur ÍBV yfir í leiknum í kvöld. mbl.is/Sigfús Gunnar

ÍBV vann stórsigur á Aftureldingu, 5:0, í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi-deildinni, á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld. Nýliðar ÍBV hafa þar með unnið tvo fyrstu leiki sína með þessari markatölu.

Kristín Erna Sigurlásdóttir og Danka Podovac skoruðu tvö mörk hvor og Berglind Björg Þorvaldsdóttir eitt.

Þrír aðrir leikir fara fram í kvöld og er fylgst með gangi mála í þeim öllum: Bein lýsing.

Fylgst var með gangi mála á Hásteinsvelli hér á mbl.is:

92. Flautað af í Eyjum og stórsigur, 5:0, er staðreynd.

89. Vesna Smiljkovic á stungusendingu á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem skýtur í mjöðmina á Jacqceline T Des Jardin, markmanni Aftureldingar og boltinn fer í horn. Ekkert verður úr horninu.

84. Afturelding fær hornspyrnu, góð spyrna og boltinn endar hjá Vaila Barsley sem á skot beint í fangið á Birnu Berg Haraldsdóttur markverði ÍBV.

77. Afturelding á gott skot af vinstri kanti, Elín Svavarsdóttir, en Birna Berg Haraldsdóttir í marki ÍBV ver örugglega.

75. Tvær skiptingar hjá ÍBV. Út af koma Þórhildur Ólafsdóttir og Danka Podovac og inn á koma Hlíf Hauksdóttir og Edda María Birgisdóttir.

72. MARK - 5:0. Eyjakonur láta það ekki á sig fá að spila á móti sterkum strengnum. Vesna Smiljkovic á þversendingu á Kristínu Ernu Sigurlásdóttur, sem á hörkuskot í þverslána og inn.

68. Sesselja Líf Valgeirsdóttir átti hörkuskot að marki ÍBV en vel varið hjá Birnu Berg Haraldsdóttur. Afturedling fær horn en spyrnan er ekki góð og boltinn endar í hliðarnetinu.

66. Vaila Barsley brýtur illa á Kristínu Ernu rétt utan vítateigs Aftureldingar og fær gult spjald fyrir. Ekkert verður úr aukaspyrnunni.

60. Berglind Björg Þorvaldsdóttir á skot í stöng eftir þunga sókn ÍBV.

58. MARK - 4:0. Sigríður Lára Garðarsdóttirbrunar upp völlinn með boltann og rennir honum á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem skorar auðveldlega fjórða mark ÍBV.

55. Leikurinn hefur jafnast töluvert, liðin skiptast á um að sækja en lítið um hættuleg færi það sem af er seinni hálfleik.

47. ÍBV virðist ætla að pressa áfram framarlega þrátt fyrir að liðið leiki nú á móti hífandi rokinu.

46. Þjálfararnir gera báðir breytingar á liðum sínum í hálfleik. Afturelding skiptir út markmanni sínum, Nína Björk Gísladóttir kemur út af fyrir Jacqceline T Des Jardin. ÍBV skiptir út vinstri bakverði, Jóhanna Svava Gunnarsdóttir kemur út af fyrir Kolbrúnu Ingu Stefáns.

45. HÁLFLEIKUR á Hásteinsvelli og staða Eyjakvenna er vænleg, staðan er 3:0.

40. MARK - 3:0. Danka Podovac skorar aftur, sitt annað mark í leiknum. Brotið á Kristíni Ernu rétt fyrir utan vítateiginn og dæmd aukaspyrna. Hana tekur Danka og skorar með hnitmiðuðu skoti.

36. Í Eyjum eru nú 18 metrar á sekúndu, fer í 25 metra á sekúndu í vindhviðum, og hitinn er 6,8 stig. Kjöraðstæður til knattspyrnuiðkunar, eða hitt þó heldur!

27. MARK - 2:0. Danka Podovac skorar fyrir ÍBV, með skoti utan af velli, og aftur er það Þórhildur Ólafsdóttir fyrirliði sem leggur upp markið.

12. MARK - 1:0. Kristín Erna Sigurlásdóttir kemur ÍBV yfir eftir sendingu frá Þórhildi Ólafsdóttur.

10. Kristín Erna Sigurlásdóttir skýtur naumlega framhjá marki Aftureldingar.

9. Vindurinn hefur mikil áhrif á leikinn. ÍBV sækir meira undan honum.

7. Hörkuskot frá Dönku Podovac að marki Aftureldingar.

3. Berglind Björg Þorvaldsdóttir sóknarmaður ÍBV brennir af úr dauðafæri.

1. Leikurinn er hafinn á Hásteinsvelli. Mikið rok er á vellinum í dag og Afturelding hefur leikinn gegn vindinum.

Leikskýrslan úr ÍBV-Afturelding.

ÍBV, sem vann 1. deildina í fyrra, sigraði Þór/KA óvænt á Akureyri, 5:0, í fyrstu umferðinni og Afturelding gerði þá 0:0 jafntefli við KR á heimavelli.

Þetta er fyrsti heimaleikur ÍBV í efstu deild í sex ár en kvennalið félagsins var lagt niður um sinn að loknu tímabiliinu 2005.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka