Tryggva varð að ósk sinni

Tryggvi Guðmundsson í leik með ÍBV á móti Val.
Tryggvi Guðmundsson í leik með ÍBV á móti Val. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tryggvi Guðmundsson, reyndasti leikmaður ÍBV, er hæfilega bjartsýnn á að liðið komist í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu en ÍBV dróst í morgun á móti Saint Patrick's.

„Þegar ég sá listann með þeim 24 liðum sem við gætum mætt þá sagði ég að þetta lið og liðið frá Wales væru heppilegustu liðin að mæta með það fyrir augum að komast áfram. Fyrirfram met ég stöðuna þannig og ég tala nú ekki um þegar búið var að flokka þetta niður í 5 lið sem við gátum mætt. Auðvitað hefði verið gaman að mæta Fulham upp á fjörið að gera. Ég hef nú einhverja reynslu af því að mæta liðum frá Írlandi, N-Írlandi og Wales en þessi félög þjást nú oft af því að vera í nálægð við England og Skotland. Bestu leikmennirnir frá þessum löndum eru iðulega farnir yfir snemma og þess vegna hafa þessar deildir ekki verið hátt skrifaðar,“ sagði Tryggvi þegar Mbl.is ræddi við hann.

Takist ÍBV að komast áfram þá mætir liðið annað hvort FC Koper frá Slóveníu eða Shaktar Karagandy frá Kasakstan. „Ég veit ekkert um þessi lið en fór einu sinni til Kasakstan með FH og við riðum ekki feitum hesti frá því verkefni. Við vorum slegnir út samanlagt 5:0 ef ég man rétt en það var annað lið. Hvað ferðalagið varðar þá er ábyggilega betra að fá liðið frá Slóveníu. Ég man að ferðalagið til Kasakstan var mikið fyrirtæki og við tókum með okkur kokk og íslensk matvæli því við vissum ekkert hvað beið okkar. Það er meiri vestur Evrópubragur á Slóveníu. Aðalatriðið er að hugsa um Saint Patrick's áður en maður fer að pæla í hinum liðunum,“ sagði Tryggvi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert