Tíu Grindvíkingar komust áfram

Ray Anthony Jónsson og félagar í Grindavík lögðu HK.
Ray Anthony Jónsson og félagar í Grindavík lögðu HK. mbl.is/Árni Sæberg

Grindavík er komin í átta liða úrslitin í bikarkeppni karla í fótbolta, Valitor-bikarsins, eftir sigur á 1. deildarliði HK, 2:1, á  Grindavíkurvelli í kvöld. Manni færri héldu Grindvíkingar fengnum hlut allan seinni hálfleikinn.

Magnús Björgvinsson kom Grindavík í 2:0 eftir 20 mínútna leik en Hafsteinn Briem minnkaði muninn fyrir HK tíu mínútum síðar. Bogi Rafn Einarsson, varnarmaður Grindavíkur fékk rauða spjaldið í lok fyrri hálfleiks.

HK-ingar gerðu oft harða hríð að marki 10 Grindvíkinga seinni hluta seinni hálfleiksins og fengu nokkur góð færi til að jafna metin. Í uppbótartímanum fengu Grindvíkingar hinsvegar þrjú dauðafæri til að skora þriðja markið úr skyndisóknum gegn fáliðaðri vörn HK en náðu því ekki.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90+6 LEIK LOKIÐ með sigri Grindavíkur, 2:1.

90+5 Þriðja skyndisókn Grindavíkur og Ögmundur ver aftur frá Pospísil, nú úr enn meira dauðafæri í markteignum!!

90+4 Ögmundur Ólafsson í marki HK ver glæsilega af stuttu færi frá Michal Pospísil í skyndisókn Grindvíkinga.

90+3 Magnús Björgvinsson Grindvíkingur kemst einn í skyndisókn upp völlinn eftir mikla pressu HK. Hann reynir skot frá miðju, einn gegn Ögmundi markverði, og hittir ekki markið!!

90+2 Látlaus sókn HK á lokakaflanum og Orri Sigurður Ómarsson skallar yfir markið úr ágætu færi.

88. Dauðafæri HK! Orri Sigurður Ómarsson brunar inní vítateiginn hægra megin og sesndir boltann inní markteiginn. Ólafur Örn Eyjólfsson rennir sér í hann fyrir galopnu marki en nær ekki að stýra honum í netið!!

85. Síðasta skipting HK. Ólafur Örn Eyjólfsson kemur inná fyrir Fannar Frey Gíslason.

83. Síðasta skipting Grindavíkur. Óli Baldur Bjarnason kemur inná fyrir Matthías Örn Friðriksson.

81. Birgir Magnússon sleppur innfyrir vörn Grindavíkur eftir sendingu frá Davíð bróður sínum. Hann er vinstra megin í vítateignum og Óskar markvörður nær að verja skot hans í horn.

80. HK-ingar í vænlegri skyndisókn en Hafsteinn Briem skýtur full snemma, af 25 m færi, og framhjá marki Grindavíkur.

79. Magnús Björgvinsson er rétt búinn að ná þrennunni fyrir Grindavík. Hann nær ekki nógu vel til boltans í markteignum og Ögmundur Ólafsson markvörður HK gómar hann á marklínunni.

78. Grindvíkingar virðast ætla að halda þessu á skynseminni, manni færri. Þeir hafa verið skipulagðir í varnarleik sínum en ekki hætt sér með marga menn fram völlinn.

72. Skipting hjá HK. Birgir Magnússon kemur inná fyrir Eyþór Helga Birgisson.

71. Hætta við mark HK þegar Magnús Björgvinsson hafði betur gegn Ögmundi markverði við endalínu og sendi fyrir markið, en enginn Grindvíkingur var mættur til taka við boltanum.

69. Tvöfalt dauðafæri HK. Eyþór Helgi Birgisson fer illa með Orra Frey Hjaltalín úti á kanti, brunar inní vítateiginn, einn gegn Óskari, sem ver frá honum. Boltinn hrekkur út þar sem tveir HK-ingar eru í færi en hika og varnarmaður kemst loks fyrir skot Leifs Andra Leifssonar.

67. Fyrsta markskot Grindavíkur í seinni hálfleik. Jóhann Helgason reynir skot af 30 m færi en í varnarmann og horn. Ekkert kemur uppúr því.

66. Sannkallað dauðafæri HK. Eyþór Helgi Birgisson sendir fyrir frá hægri og Fannar Freyr Gíslason var á markteig Grindavíkur en skallaði beint í hendur Óskars í markinu!

64. Skipting hjá Grindavík. Scott Ramsay fer af velli og Ray Anthony Jónsson kemur í hans stað.

63. Fyrsta markskot seinni hálfleiks á Ívar Örn Jónsson fyrir HK. Hörkuskot frá vítateig en Óskar Pétursson ver örugglega.

55. Tíu mínútur liðnar af seinni hálfleik og ekkert hefur gerst uppvið mörkin eftir hlé. Það er að vonum minni sóknarbroddur í tíu Grindvíkingum, HK hefur komið framar á völlinn en ekki náð að ógna marki heimamanna.

47. GULT. HK-ingurinn Eyþór Helgi Birgisson fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Alexander Magnússyni úti við hliðarlínu.

46. SEINNI HÁLFLEIKUR er hafinn á Grindavíkurvelli þar sem heimamenn eru 2:1 yfir gegn HK.

45. HÁLFLEIKUR í Grindavík og staðan er 2:1 fyrir heimamenn. Leikurinn hefur heldur betur tekið óvænta stefnu. Grindavík var komin í 2:0 með tveimur mörkum Magnúsar Björgvinssonar eftir 19 mínútur og virtist eiga þægilegan leik fyrir höndum. HK minnkaði muninn þegar Hafsteinn Briem skoraði á 31. mínútu og svo vænkaðist hagur Kópavogsliðsins rétt fyrir hlé þegar Bogi Rafn Einarsson, vinstri bakvörður Grindavíkur, fékk rauða spjaldið.

45. Hólmbert Friðjónsson fær sendingu inní vítateig Grindavíkur hægra megin frá Leifi Andra Leifssyni en skýtur í hliðarnetið.

45. RAUTT SPJALD !! Bogi Rafn Einarsson hjá Grindavík fær beint rautt spjald fyrir að fara í tveggja fóta tæklingu á HK-inginn Orra Sigurð Ómarsson. Hreint óskiljanlegt brot á vallarhelmingi andstæðinganna þar sem ekkert var í gangi.

43. GULT. Hólmbert Friðjónsson hjá HK fær gult spjald fyrir að nota höndina til að koma sér innfyrir vörn Grindvíkinga.

42. Davíð Magnússon kemur inná hjá  HK fyrir Bjarka Má sem liggur enn utan vallar.

40. Bjarki Már Sigvaldason, sem hefur verið áberandi á miðjunni hjá HK, er borinn meiddur af velli. Lítur útfyrir að þátttöku hans í leiknum sé lokið.

33. Jamie McCunnie fær upplagt færi til að skora fyrir Grindavík en skýtur laust og beint á Ögmund í marki HK.

31. MARK - 2:1. HK fær aukaspyrnu rétt utan vítateigs, brotið á Bjarka Má Sigvaldasyni sem var að stinga sér inní teiginn. Hafsteinn Briem tekur spyrnuna og sendir boltann með jörðu í hægra hornið. Óskar Pétursson markvörður missir hann klaufalega framhjá sér.

28. Robbie Winters, skoski framherjinn hjá Grindavík, fer meiddur af velli. Jafnaði sig greinilega ekki af hnjaskinu sem hann varð fyrir í byrjun. Tékkinn Michal Pospísil kemur í hans stað.

19. MARK - 2:0. Grindvíkingar koma sér í enn betri stöðu. Aukaspyrna við endamörkin hægra megin. Scott Ramsay tekur hann og sendir fasta sendingu að stönginni fjær þar sem Magnús Björgvinsson skorar með hörkuskalla, sitt annað mark.

17. Hólmbert Friðjónsson með skot að marki Grindavíkur frá vítateig en rétt yfir.

14. MARK - 1:0. Grindavík nær forystunni. Magnús Björgvinsson kemst inní slaka sendingu hjá varnarmanni HK, sleppur framhjá Ögmundi markverði HK yst í vítateignum, missir boltann frá sér en nær að skora úr þröngu færi.

13. Matthías Örn Friðriksson með góðan skalla að marki HK eftir fyrirgjöf frá hægri en rétt yfir þverslána.

12. Grindavík er meira með boltann það sem af er en HK hefur átt ágætis kafla líka.

7. Magnús Björgvinsson með fyrirgjöf frá hægri og Robbie Winters skallar framhjá marki HK úr ágætu færi innvið markteig.

6. Hættulegt færi HK. Leifur Andri Leifsson með fyrirgjöf frá vinstri. Óskar Pétursson fór í glórulaust úthlaup úr marki Grindavíkur og Hólmbert Friðjónsson skallaði yfir hann en framhjá markinu.

2. Robbie Winters, skoski framherjinn hjá Grindavík, þarf aðhlynningu vegna meiðsla. 

19.15 LEIKUR HAFINN á Grindavíkurvelli. Grindavík leikur gegn vindi og í átt að Þorbirninum.

19.14 Dómari leiksins í kvöld er Pétur Guðmundsson og aðstoðardómarar eru Viðar Helgason og Eðvarð Eðvarðsson.

19.10 Grindvíkingar eru í 9. sæti Pepsi-deildarinnar með 7 stig eftir 7 leiki. HK situr hinsvegar á botni 1. deildarinnar með aðeins eitt stig eftir 7 leiki.

19.08 Grindavík vann KA, 2:1, á útivelli í 32ja liða úrslitum bikarkeppninnar og HK vann Njarðvík, 1:0, á útivelli. HK er því aftur mætt á Suðurnesin.

19.02 Hjá Grindavík eru þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik, sem var 0:2 tapleikur gegn Stjörnunni í Pepsi-deildinni. Ray Antony Jónsson og Michal Pospísil setjast á bekkinn en Paul McShane er ekki í hópnum. Bogi Rafn Einarsson, Magnús Björgvinsson og Matthías Örn Friðriksson koma inní liðið.

19.00 HK leikur í kvöld sinn fyrsta leik undir stjórn Ragnars Gíslasonar en hann tók við af Tómasi Inga Tómassyni í gær. Ragnar gerir tvær breytingar á byrjunarliði HK. Eyþór Helgi Birgisson og Leifur Andri Leifsson koma í stað Atla Valssonar og Arons Bjarnasonar.

Lið Grindavíkur: Óskar Pétursson - Alexander Magnússon, Ólafur Örn Bjarnason, Matthías Örn Friðriksson, Bogi Rafn Einarsson, Jóhann Helgason, Orri Freyr Hjaltalín, Scott Ramsay, Jamie McCunnie, Magnús Björgvinsson, Robert Winters.
Varamenn: Ray Anthony Jónsson, Michal Pospísil, Páll Guðmundsson, Jack Giddens (m), Guðmundur Andri Bjarnason, Óli Baldur Bjarnason, Guðmundur Egill Bergsteinsson.

Lið HK: Ögmundur Ólafsson - Orri Sigurður Ómarsson, Ásgrímur Albertsson, Hervé Aka'a, Ívar Örn Jónsson - Hafsteinn Briem, Hólmbert Aron Friðjónsson, Bjarki Már Sigvaldason - Eyþór Helgi Birgisson, Fannar Freyr Gíslason, Leifur Andri Leifsson.
Varamenn: Davíð Magnússon, Gunnar Geir Gunnlaugsson (m), Birgir Ólafur Helgason, Birgir Magnússon, Samúel Arnar Kjartansson, Ólafur Örn Eyjólfsson, Bjarni Þór Stefánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert