Nýliðar ÍBV urðu fyrstar til að leggja Íslands- og bikarmeistara Vals að velli í Pepsí-deild kvenna í knattspyrnu á þessu sumri þegar liðin mættust á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í dag klukkan 18. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Úrslitin hleypa talsverðu lífi í toppbaráttuna í deildinni en ÍBV er nú þremur stigum á eftir Val. Stjarnan getur komist á toppinn með sigri í Kópavoginum í kvöld.
90. mín: LEIK LOKIÐ. Fyrsta tap Íslands- og bikarmeistara Vals á þessu sumri leit dagsins ljós í Vestmannaeyjum. Nýliðarnir sigruðu 1:0 og fagna ógurlega á Hásteinsvelli.
63. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir ÍBV. Danka Podovac skoraði með skalla úr vítateignum eftir fyrirgjöf frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur. Nú reynir á Íslands- og bikarmeistarana sem ekki hafa tapað leik í sumar.
45. mín: Staðan er 0:0 að loknum fyrri hálfleik. Leikurinn er í járnum og ÍBV hefur staðið uppi í hárinu á meisturunum.
38. mín: Staðan er 0:0. Áhorfendur í Eyjum vildu fá vítaspyrnu en þeir töldu að boltinn hafi farið í hönd leikmanns Vals innan vítateigs en ekkert var dæmt.
15. mín: Staðan er 0:0. ÍBV hefur verið talsvert með boltann og Valsliðinu gengur illa að ná tökum á leiknum á upphafsmínútunum samkvæmt heimildamanni mbl.is í Eyjum.
ÍBV byrjaði mjög vel í deildinni í vor en þurfa að vinna þennan leik til að halda sér fyrir alvöru í toppbaráttunni. ÍBV hefur tapað tveimur leikjum og gert eitt jafntefli í fyrstu 8 umferðunum en Valskonur hafa hins vegar unnið sjö og gert eitt jafntefli.