Við þurfum að hitta á góðan dag

Ólafur H. Kristjánsson.
Ólafur H. Kristjánsson. mbl.is/Eggert

„Okkar markmið er að ná í hagstæð úrslit og sjá til þess að möguleikinn á að komast áfram verði til staðar þegar við mætum Rosenborg aftur á Kópavogsvellinum,“ sagði Ólafur H. Kristjánsson þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks við Morgunblaðið í gær.

Lið Breiðabliks kom til Þrándheims á mánudag þar sem það mætir margföldum Noregsmeisturum Rosenborg í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

„Ég er búinn að skoða lið Rosenborg mjög vel, fór á leik með liðinu á dögunum og hef skoðað fimm leiki af myndböndum. Það hljómaði ekki vel að mæta þessu sterka liði til að byrja með en í dag er Rosenborg ekki með eins öflugt og reynt lið og oft áður. Þetta er hinsvegar ágætis lið, vel þjálfað og skipulagt, og við þurfum að hitta á góðan dag til að ná hagstæðum úrslitum,“ sagði Ólafur en Blikaliðið æfði tvisvar í Þrándheimi í gær, í seinna skiptið á Lerkendal leikvanginum þar sem Rosenborg hefur unnið marga frækilega sigra í Evrópukeppni.

Blikar verða án miðvarðarins Elfars Freys Helgasonar, eins og fram kemur annars staðar. „Það kom flatt uppá mig að Elfar yrði ekki með okkur, eins og til stóð. Ég þarf því að breyta talsvert okkar áætlunum fyrir varnarleikinn,“ sagði Ólafur.

Hann er að öðru leyti með sitt sterkasta lið í Þrándheimi. Haukur Baldvinsson er þó fjarri góðu gamni vegna meiðsla, en hann hefur verið frá keppni undanfarnar vikur af þeim sökum.

Himinn og haf er á milli Rosenborg og Breiðabliks hvað varðar reynslu af Evrópukeppni. Blikar spila sinn þriðja Evrópuleik í sögunni í kvöld en Rosenborg hefur spilað 128 leiki í Meistaradeild Evrópu, þar af 28 í riðlakeppninni, og 52 leiki í öðrum Evrópumótum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert