Setur KR allt úr skorðum?

Guðjón Baldvinsson í hörðum slag í leiknum við Zilina.
Guðjón Baldvinsson í hörðum slag í leiknum við Zilina. mbl.is/Ernir

Frammistaða KR-inga í Evrópudeildinni gæti sett Íslandsmótið í knattspyrnu í ákveðið uppnám fari svo að þeim takist að slá Zilina frá Slóvakíu út. KR er í afar vænlegri stöðu eftir 3:0 sigur í fyrri leik liðanna á KR-velli. Ljóst er að komist KR í 3. umferð mun þurfa að hnika til undanúrslitaleiknum í bikarnum við BÍ/Bolungarvík og færa deildaleik við Keflavík sem settur er 3. ágúst.

FH á erfiðara verkefni fyrir höndum en alls ekki er óhugsandi að Hafnfirðingarnir slái Nacional frá Portúgal útúr Evrópudeildinni. FH-ingar eru hinsvegar úr leik í bikarnum þannig að minna rask yrði á mótinu, allavega til að byrja með, þó þeir næðu lengra í keppninni.

Bikarleikur KR við Djúpmenn á samkvæmt núverandi áætlun að fara fram fimmtudaginn 28. júlí. Ef KR kemst áfram í Evrópudeildinni mun sá leikur verða færður fram á sunnudaginn 31. júlí, sem sagt um verslunarmannahelgina, því fyrri leikurinn í 3. umferð Evrópudeildarinnar mun fara fram 28. júlí.

KR mun svo fara frá Ísafirði til annað hvort Wales eða Georgíu þar sem seinni leikurinn í 3. umferð mun fara fram 4. ágúst. Vegna hans þarf að færa Keflavíkurleikinn, og er ráðgert að hann verði hugsanlega færður alla leið fram til 21. september samkvæmt Birki Sveinssyni mótastjóra KSÍ, og yrði þá þriðji síðasti leikur KR í sumar. Þegar hefur þurft að fresta leik KR við ÍBV til 25. ágúst og mun liðið því verða tveimur leikjum á eftir flestum öðrum liðum í Pepsideildinni frá 3. ágúst til 25. ágúst, og einum leik á eftir öðrum liðum fram til 21. september.

Fari svo að BÍ/Bolungarvík slái KR út úr bikarnum væri hugsanlega hægt að hafa Keflavíkurleikinn 18. ágúst en annars mun bikarúrslitaleikurinn koma í veg fyrir það. Bikarúrslitaleikurinn á að fara fram 13. ágúst og spili KR hann mun deildaleikur við Þór verða færður frá 15. ágúst og seinkað um einhverja daga.

Af þessari upptalningu má ljóst vera að í nógu er að snúast hjá mótastjóra KSÍ, og hann á nær óvinnandi verk fyrir höndum fari svo að KR komist áfram úr 3. umferð sem er alls ekki útilokað. Þá myndu bætast við tveir leikir til viðbótar í þéttskipaða leikjadagskrá KR-inga í ágúst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert