Andri hættur sem þjálfari Víkings

Andri Marteinsson, Ólafur Ólafsson
Andri Marteinsson, Ólafur Ólafsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andri Marteinsson er hættur sem þjálfari úrvalsdeildarliðs Víkings í knattspyrnu. Víkingar sendu frá sér fréttatilkynningu nú rétt í þessu þar sem fram kemur að félagið hafi slitið samstarfi við Andra og aðstoðarmann hans, Ólaf Ólafsson. Þeir láta af störfum þegar í stað.

Víkingar töpuðu fyrir Fram á heimavelli, 1:0, í gærkvöld og sitja í næst neðsta sæti Pepsi-deildarinnar með 7 stig. Þeir lögðu Þórsara í 1. umferðinni en hafa ekki unnið leik síðan.

Fréttatilkynningin frá Víkingi; 

,,Í ljósi árangurs úrvalsdeildarliðs Víkings í undanförnum leikjum hefur stjórn knattspyrnudeildar félagsins farið þess á leit við Andra Marteinsson og Ólaf Ólafsson að þeir láti af störfum sem þjálfarar liðsins. Hafa Andri og Ólafur fallist á þessa beiðni með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og úr er samkomulag um að þeir láti af störfum frá og með deginum í dag 19. júlí 2011. 

Á þeim fimm mánuðum sem liðnir eru frá því Andri Marteinsson tók við störfum af Leifi Garðarssyni við erfiðar aðstæður hefur honum að mati stjórnar ekki tekist að ná nægilega góðum árangri með liðið. Það er því með trega í hjarta sem sú ákvörðun er í dag tekin að slíta þessu samstarfi.  

Knattspyrnudeild Víkings þakkar Andra og Óla fyrir vel unnin störf og óskar þeim alls hins besta í framtíðinni.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert