Það blés ekki byrlega fyrir nýráðinn þjálfara Víkings, Bjarnólf Lárusson, í fyrsta leik sínum við stjórnvölinn en liðið tapaði 6:1 fyrir Þórsurum. Það er vitað mál að með nýjum þjálfara koma nýjar áherslur sem taka tíma, en aðspurður segist hann þó ekki hafa átt von á svona stóru tapi.
„Nei ég átti nú ekki von á svona stórum skelli. Ég átti von á því að við myndum ráða betur við þennan leik, en þeir refsuðu okkur illilega í fyrri hálfleik með færunum sem þeir fengu og það var á brattann að sækja eftir það. Síðari hálfleikurinn fór ágætlega af stað fyrir okkur en undir lokin voru mínir menn ekki nægilega góðir, þetta vonleysi sem kom upp var mjög svekkjandi,“ sagði Bjarnólfur í samtali við mbl.is.
Það var einkennandi fyrir Víkinga í leiknum hvað baráttuleysið var mikið og var Bjarnólfur sammála því. „Það er vonandi til miklu meira af baráttuvilja í þessu liði. Þórsararnir voru mun grimmari og áttu baráttuna í leiknum svo það sárlega vantaði viljann hjá mínum mönnum.“
Víkingar eru í mjög erfiðri stöðu við botn deildarinnar, en aðspurður segir Bjarnólfur að hann og Tómas Ingi Tómasson aðstoðarþjálfari hafi fulla trú á verkefninu sem fyrir liggur. „Að sjálfsögðu höfum við það, annars hefðum við ekki tekið þetta að okkur. Það hefur ekkert breyst með leiknum í kvöld, þetta sýnir bara hvað liðið er í alvarlegri stöðu og það er bara okkar að vinna út úr því. Nú reynir bara á karakterinn í mannskapnum hvernig þeir taka á þessum úrslitum og meðhöndla þau í framhaldinu,“ sagði Bjarnólfur Lárusson, þjálfari Víkings.