Rúnar: Dómarinn túlkaði þetta á annan hátt

„Við getum ekki kallað þetta óheppni en þeir refsuðu okkur grimmilega fyrir okkar mistök,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR eftir tapið gegn Dinamo Tbilisi í Evrópudeildinni í knattspyrnu í kvöld.

„Við fengum fjögur eða fimm dauðafæri en nýttum þau illa. Þeir spiluðu sig vel í gegn og kláruðu sín færi virkilega vel,“ sagði Rúnar sem var ósáttur við að ekki skyldi dæmd óbein aukaspyrna á Dinamo þegar leikmaður liðsins sendi boltann á markvörðinn sem tók boltann upp en í kjölfarið skoraði Dinamo og jafnaði metin.

„Ég er mjög ósáttur við það. Dómarinn túlkaði þetta á annan hátt og fyrir vikið fengu þeir skyndisókn sem við vorum allt of lengi að bregðast við og fengum á okkur mark. Maður hefði viljað fara með 1:0 stöðuna inn í hálfleikinn.“

Bjarni Guðjónsson og Magnús Már Lúðvíksson voru báðir á varamannabekk KR í kvöld allan leikinn.

„Við söknuðum þeirra að einhverju leyti en það komu fínir menn inná. Ásgeir stóð sig vel og Dofri líka. Við erum í erfiðri leikjatörn og þurfum að hreyfa til í liðinu. Við tókum þessa ákvörðun í dag og maður veit aldrei fyrir fram hvernig liðið og leikmenn munu bregðast við. Það er ekki hægt að lasta þá menn sem komu inn í liðið,“ sagði Rúnar sem stýrir KR næst gegn BÍ/Bolungarvík í bikarnum á sunnudag.

„Ég reikna með að vera með mitt besta lið þar. Við tökum þann leik af fullri alvöru og munum þurfa að hafa fyrir hlutunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert