Miðvallarleikmaðurinn Sam Hewson er genginn í raðir Fram en hann hefur verið til reynslu hjá Safamýrarliðinu síðustu daga. Framarar vænta mikils af kappanum sem hefur meðal annars borið fyrirliðabandið fyrir varalið Manchester United.
Hewson er 22 ára gamall og lék síðast með enska neðrideildarliðinu Altringham. Hann var hins vegar á mála hjá Manchester United þar til í fyrravor þegar samningur hans við Englandsmeistarana rann út.
Hewson var meðal annars fyrirliði U18-liðs og varaliðs United, þar sem hann lék undir stjórn Brian McClair og Ole Gunnar Solskjær, og sat á varamannabekk United þegar liðið lék gegn Roma í Meistaradeildinni árið 2007. Myndband af kappanum má sjá hér að neðan.
Fram er sem stendur í neðsta sæti Pepsideildarinnar.