„Fyrstir til að vinna KR“

Sveinn Elías Jónsson í baráttu við Jordao Diogo.
Sveinn Elías Jónsson í baráttu við Jordao Diogo. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Við erum svona nokkurn veginn búnir að jafna okkur og gerum það alveg eftir sigurinn á KR,“ sagði Þórsarinn Sveinn Elías Jónsson við Morgunblaðið í gær en Þórsarar taka á móti KR-ingum í lokaleik 15. umferðar Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Sem kunnugt er tapaði Þór fyrir KR í bikarúrslitunum á Laugardalsvelli um síðustu helgi í hreint ótrúlegum leik en norðanmenn voru betri aðilinn lengst af leik en á hreint óskiljanlegan hátt tókst þeim ekki að koma tuðrunni í netið. Fimm sinnum skutu þeir boltanum í þverslá KR-marksins.

„Okkur þyrstir í að ná fram hefndum. Við vorum rændir sigrinum í bikarleiknum. Það eru flestir sammála því að við vorum miklu betra liðið og þó svo að við höfum tapað þá vorum við ánægðir með spilamennskuna. Umfjöllunin í sumar um okkar lið hefur oftar en ekki verið á þá leið að við séum ruddar og spilum gróft en ég held að við höfum náð að sýna fram á við getum svo sannarlega spilað góðan fótbolta,“ sagði Sveinn Elías, sem hefur leikið afar vel með Þórsliðinu í sumar.

„Það hefur reynst erfitt fyrir önnur lið að taka stig af okkur á Þórsvellinum og við ætlum ekkert að breyta því. Það er klárt í huga okkar að við ætlum okkur að verða fyrstir til að vinna KR-inga í sumar,“ sagði Sveinn, sem vonar að KR-ingar hampi Íslandsmeistaratitlinum í haust því það myndi tryggja Þórsurum sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

„KR-ingar mega verða meistarar en þeir fá ekki stig á móti okkur.“

Spurður hvort hann og samherjar hans hafi ekki verið á skotæfingum í vikunni í ljósi allra skotanna sem fóru í álverkið á Laugardalsvellinum sagði Sveinn Elías; „Það er sekt fyrir að skjóta boltanum í slána á æfingunum og þannig verður það áfram. Ég held svei mér þá að mörkin fyrir sunnan hafi verið eitthvað minni en hér fyrir norðan,“ sagði Sveinn.

Takist Þór að innbyrða sigur á meistaraefnunum í KR í kvöld fara norðanmenn upp fyrir Fylki í sjötta sæti deildarinnar en fari KR með sigur af hólmi ná þeir fjögurra stiga forskoti á toppnum. „Nú horfum við upp töfluna en ekki niður. Við getum komið okkur vel fyrir um miðja deild með sigri og það ætlum við okkur,“ sagði Sveinn Elías.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert