Það dregur svo sannarlega til tíðinda í toppbaráttu Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld þegar toppliðin í deildinni, KR og ÍBV, leiða saman hesta sína á KR-vellinum. Þetta er frestaður leikur frá 9. umferð og liðin eiga þar með eftir að mætast aftur en þau eigast við í Eyjum eftir rúmar þrjár vikur.
KR-ingar hafa trónað í toppsæti deildarinnar í nær allt sumar og það verðskuldað en eftir 1:1 á móti Stjörnunni á mánudaginn opnaðist titilbaráttan upp á gátt. Eyjamenn eru í þeirri stöðu að eiga möguleika á að velta KR-liðinu úr toppsætinu en takist þeim að leggja Vesturbæjarstórveldið í kvöld ná þeir komast einu stigi á undan KR, sem á leik til góða. FH-ingar eru skammt undan og toppliðin þrjú eiga öll eftir að mætast innbyrðis svo spennandi tímar eru í vændum í titilbaráttunni.
Það ætti enginn að verða svikinn að mæta í Frostaskjólið í kvöld og vonandi bjóða liðin upp á góða sýningu. Skemmtikraftarnir eru til staðar og ég á mér þá von í brjósti að þeir nái að laða allt sitt besta fram og við fáum „einn leik með öllu“.
Sjá nánar ítarlega umfjöllun um stórleikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.