Björgólfur Takefusa sóknarmaður Víkings var fullur bjartsýni að liðinu tækist að bjarga sér frá falli úr Pepsi-deildinni í knattspyrnu þrátt fyrir 3:1 tap fyrir ÍBV á heimavelli. Víkingar spiluðu mjög vel í fyrri hálfleik þrátt fyrir að hafa fengið á sig ódýra vítaspyrnu á 7. mínútu.
„Maður á voðalega lítið að tjá sig um það en mér skilst að það sé búið að viðurkenna að þetta hafi ekki verið víti. Það skiptir ekki máli því við komum okkur í þá stöðu að þeir geta fengið víti. Það er eitthvað sem við þurfum að taka á. Þetta er bara eins og tímabilið hjá okkur í hnotskurn. Það þýðir ekki að gráta það því við erum ekki búnir að nýta okkur það þegar við höfum fengið meðbyr.“
En vantar ekki einfaldlega gæði í þetta Víkingslið? „Það finnst mér ekki. Það munu einhverjir hlæja að því hjá mér en það er mjög langt frá því [að það sé ekki nógu gott]. Það eru flottir fótboltamenn í þessu liði en við virðumst ekki ná að spila okkur saman. Skiljanlega er lítið sjálfstraust en ég hef fulla trú á þessum mannskap en þetta er orðið ansi svart,“ sagði Björgólfur um Víkingsliðið.
Mótbyr snemma á tímabilinu eftir einn sigur og eitt jafntefli hefur reynst Víkingum erfiður Björgólfur lýsti ástandinu á þennan hátt. „Mér finnst vera hræðsla og menn átti sig ekki á hversu góðir við erum í fótbolta. Liðið hefur gæði til að spila í efstu deild, það er ekki spurning en ekki eins og við höfum verið að spila að undanförnu og með því vinnuframlagi sem við höfum verið að sýna. Taflan sýnir það.“
Spurður hvort Víkingsliði gæti bjargað sér en þeir geta nælt sér í 15 stig í þeim leikjum sem þeir eiga eftir, sagði Björgólfur. „Auðvitað er þetta hægt, þetta lítur mjög illa út eins og ég sagði áðan. Þetta er í raun eins svart og hægt er. Ég hef án alls gríns trú á þessu. Ég er ekki að segja þetta bara til að segja þetta. Ég hef bæði trú á mannskapnum og á okkar þjálfurum sem vita hvað þeir vilja og eru búnir að skoða andstæðingana mjög vel og við fáum góðar skipanir. Við náum hinsvegar ekki að fylgja þeim. Það eina sem vantar er hausinn og hann spilar mjög stóra rullu í þessum bolta. Ef við náum honum upp þá hef ég trú á að við náum í stigin til að halda okkur uppi. Það verður erfitt en við höfum trú.“