Stjarnan Íslandsmeistari 2011

Stjörnukonur fagna Íslandsmeistaratitlinum í kvöld.
Stjörnukonur fagna Íslandsmeistaratitlinum í kvöld. mbl.is/Golli

Stjarnan er Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu. Þær unnu í kvöld Aftureldingu 3:0 og eru því með sjö stiga forskot á Val þegar aðeins sex stig eru eftir í pottinum. Stjarnan var mikið mun betri í leiknum en fæðingin var erfið og náðu Íslandsmeistararnir ekki að nýta mörg góð færi. Þetta er fyrsti titill félagsins í meistaraflokki í knattspyrnu. Ásgerður Stefanía Baldursdóttur, úr víti, Ashley Bares og Inga Birna Friðjónsdóttir skoruðu mörkin öll í síðari hálfleik.

Stjarnan er aðeins búið að tapa einu sinni í 16 leikjum á tímabilinu og er því vel að titlinum komið. Þetta hafa Garðbæingar aldrei upplifað og ljóst að afrekinu verður fagnað eitthvað fram á kvöld þó það sé þriðjudagur.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér að neðan.

Stjarnan - Afturelding 3:0 Leikskýrsla.
(Ásgerður Stefanía Baldursdóttir 48. (víti), Ashley Bares 88. Inga Birna Friðjónsdóttir 90. - )

90 +2 MARK! 3:0 - Inga Birna Friðjónsdóttir skorar þriðja mark Stjörnunnar og gulltryggir sigurinn. Markið svipað og hjá Bares áðan, skot af löngu færi neðst í hægra hornið.

90. Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir fer af velli hjá Stjörnunni og Hugrún Elvarsdóttir kemur inná.

88. Markahæsti leikmaður deildarinnar gat ekki annað en skorað í þessum leik. Ashley Bares átti gott skot töluvert fyrir utan teiginn og boltinn söng í netinu. Nú er Íslandsmeistaratitilinn Stjörnunnar árið 2011.

83. Afturelding gerir þriðju og síðustu skiptingu sína í leiknum. Carla Lee fer af velli í stað Hafdísar Rúnar Gunnlaugsdóttur.

80. Ef staðan breytist ekki næstu 10 mínúturnar þá verður Stjarnan Íslandsmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins í meistaraflokki í knattspyrnu

78. Vaila Barsley og Inga Birna Friðjónsdóttir fá báðar gult spjald en þær áttu í einhverjum erjum inn í vítateig Aftureldingar.

76. Afturelding gerir aðra breytingu á liði sínu. Af velli fór Íris Dóra Snorradóttir en í hennar stað kom Harpa Kristín Björnsdóttir.

74. Ashley Bares á skot rétt yfir markið. Stjarnan er líklegri til að bæta við en Afturelding að jafna. Hlutirnir eru hinsvegar fljótir að breytast.

71. Þung pressa Stjörnunnar að marki gestanna. Fyrst var það Gunnhildur sem reyndi skot við vítateigslínuna en boltinn af varnamanni. Hann barst svo til Ashley Bares sem þrumaði að marki en Jardin varði mjög vel.

69. Carla Lee á skalla að marki Stjörnunnar en hann laus og Ása Dögg hirti boltann upp af gervigrasinu.

66. Stjarnan gerir aftur breytingu á liði sínu. Útaf fór Harpa Þorsteinsdóttir sem nældi í vítaspyrnuna en inná kom Anna María Baldursdóttir.

65. Inga Birna Friðjónsdóttir á gott skot rétt fyrir innan vítateigslínuna en Jardin varði mjög vel.

64. Afturelding fær hornspyrnu eftir góða sendingu frá Cörlu Lee sem varnarmenn Stjörnunnar björguðu afturfyrir. Þetta er nú það mesta sem gestirnir hafa sýnt hingað til í seinni hálfleik.

60. Stjarnan gerir breytingu á sínu liði. Af velli fór Anna Björk Kristjánsdóttir en inná kom Kristrún Kristjánsdóttir.

58. Þulurinn hér á Stjörnuvelli tilkynnti að 780 áhorfendur hefði lagt leið sína á völlinn í kvöld. Það var Dikta sem bauð á leikinn og því frítt fyrir áhorfendur.

55. Greinilegt er að Stjörnustúlkur ætla ekki að láta þetta eina mark nægja því þær sækja mun meira en Afturelding sem er marki undir. Edda María er enn að ógna marki gestanna með löngu skoti en nú grípur Jardin boltann.

48. MARK! 1:0 - Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skorar úr víti. Setti boltann hægra megin við Jardin í marki Aftureldingar. Brotið var á Hörpu Þorsteinsdóttur utarlega í teignum. Eins og staðan er núna verður Stjarnan Íslandsmeistari.

46. Stjarnan byrjar seinni hálfleikinn af krafti. Edda María átti gott skot af löngu færi en það varið.

46. Leikurinn er hafinn aftur og nú sækir Stjarnan á móti vindi sem hefur frekar aukist ef eitthvað er.

45. Hálfleikur. Hvorugt liðið hefur náð að skora í þessum leik og er því staðan enn 0:0. Eins og staðan er í deildinni þá nær Stjarnan ekki að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Valur er nefnilega að vinna Þrótt R. 2:0 í hálfleik. Það eru þó 45 mínútur eftir og Stjarnan þekkt fyrir að vera betri í síðari hálfleik. Afturelding verst hinsvegar mjög vel og hafa Stjörnustúlkur átt í erfiðleikum með að þefa uppi mjög hættuleg færi.

45. Lára Kristín Pedersen leikmaður Aftureldingar fær fyrsta gula spjald þessa leiks fyrir brot.

42. Báðum liðum gengur illa að finna netmöskvana, Aftureldingu þó sínu verr. Edda María Birgisdóttir átti ágætt skot að marki vel fyrir utan vítateig en það yfir markið. Anna Björg átti svo fínan skalla af stuttu færi skömmu síðar eftir aukaspyrnu frá hægri en enn fór boltinn yfir mark Aftureldingar.

34. Afturelding gerir breytingu á liði sínu. Af velli fór Kristín Tryggvadóttir en inná kom Svandís Ösp Long.

32. Gunnhildur Yrsa á ágætt skot að marki og reyndi í raun að koma boltanum yfir Jardin í marki Aftureldingar. Hann datt hinsvegar á þaknetið. Gestirnir hafa varla átt færi síðan á 4. mínútu.

28. Aftur ná Gunnhildur og Harpa vel saman í sókn Stjörnunnar. Líkt og áðan sendi Gunnhildur fyrir á Hörpu sem nú sparkaði boltanum að marki en af varnamanni og í hliðarnetið. Anna Björk átti svo fínan skalla að marki eftir hornspyrnuna en boltinn rétt yfir markið.

21. Leikurinn fer mikið fram á miðjum vellinum þessa stundina og fá hættuleg færi litið dagsins ljós.

14. Stjarnan hefur pressað mikið að marki Aftureldingar síðustu mínútur. Án þess þó að koma boltanum í netið. Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir átti skalla að marki en hann laus og Jardin greip boltann.

8. Hættulegasta færi leiksins hingað til er heimastúlkna. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kom þá fram hægri kantinn og átti hnitmiðaða sendingu á Hörpu Þorsteinsdóttur. Hún skallaði boltann en JacQceline Jardin varði meistaralega í horn.

4. Fyrsta skotið að marki er gestanna úr Mosfellsbænum. Carla Lee átti þá skalla utarlega úr teignum en Ása Dögg var ekki í vandræðum og greip boltann.

1. Leikurinn er hafinn.

18.24 Það eru aðeins fimm varamenn af mögulega sjö hjá Stjörnunni. Þar er ekki að finna varamarkvörð. Afturelding er hinsvegar með fullskipaðann bekk og varamarkvörð.

18.20 Nú, þegar eru um 10 mínútur í leik, er stúkan nánast hálffull. Það er lítil rigning og um 12 stiga hiti. Að sjálfsögðu er spilað á gervigrasi hér á Stjörnuvelli.

18.16 Ashley Bares, framherji Stjörnunnar, er langmarkahæst í Pepsi-deildinni. Hún hefur skorað 18 mörk.

18.08 Stjarnan hefur spilað 15 leiki í deildinni, unnið 14 og aðeins tapað einum. Það var gegn Val snemma sumars 2:1. Afturelding hefur hinsvegar unnið fjóra, gert þrjú jafntefli og tapað átta.

17.32 Leikskýrslan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert