Síðasta umferðin í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu fór fram í dag. Stjarnan tók við Íslandsmeistarabikarnum eftir stórsigur á Breiðabliki. Þá féll Grindavík úr deildinni ásamt Þrótti þrátt fyrir að bæði lið hafi unnið í dag. Grindavík féll á markamun en Þróttur var þegar fallið. ÍA tók við bikarnum fyrir sigur í 1. deild karla. Það gerðu Skagamenn eftir 5:0 sigur á KA.
Selfyssingar fylgja þeim upp í efstu deild á næsta ári en þeir unnu ÍR í dag, 3:1, en nægði aðeins jafntefli fyrir leikinn. Auk þess gerðu Haukar jafntefli við Þrótt R. og því þurftu Selfyssingar ekki einu sinni að vinna.
Baráttan á botni deildarinnar er hinsvegar enn mikil því þar berjast nú Leiknir R. og Grótta um sæti í deildinni að ári. Liðin mættust í dag og allt stefndi í að Leiknir færi upp fyrir heimamenn. Gróttumönnum tókst þó að jafna metin 1:1 á síðustu andartökum leiksins og eru því enn með þriggja stiga forskot á Leikni fyrir síðustu umferðina. ÍR-ingar eru hinsvegar hólpnir og spila áfram í 1. deild að ári.
Þá vann KV sigur á KFR í úrslitaleik 3. deildar karla. Fylgst var með öllum leikjum dagsins á Íslandi hér fyrir neðan.
Leik ÍR og Selfoss var lýst sérstaklega og má nálgast lýsinguna með því að smella hér.
Leikir dagsins:
PEPSI-DEILD KVENNA: - Staðan hér.
13:00 Fylkir - Grindavík 1:2 Leikskýrsla LEIK LOKIÐ
(Lovísa Erlingsdóttir 30. - Shaneka Gordon 39., 84.)
13:00 Valur - ÍBV 4:4 Leikskýrsla LEIK LOKIÐ
(Björk Gunnarsdóttir 3., 25., Julia Nelson 5. (sjálfsmark), Kristín Ýr Bjarnadóttir 63. - Berglind Björg Þorvaldsóttir 36., 84,, Danka Podovac 66., Melissa Cary 87.)
13:00 Stjarnan - Breiðablik 5:0 Leikskýrsla LEIK LOKIÐ
(Ashley Bares 30., Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 51., Harpa Þorsteinsdóttir 53., 79., Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir 72. )
13:00 Þór/KA - KR 4:0 Leikskýrsla LEIK LOKIÐ
(Sandra María Jessen 7., Manya Makoski 30., Marie Perez 43., Diane Caldwell 77. )
13:00 Afturelding - Þróttur R. 1:2 Leikskýrsla LEIK LOKIÐ
(Carla Lee 90. - Soffía Kristinsdóttir 71., Gunnhildur Ásmundsdóttir 83.)
1. DEILD KARLA: Staðan hér.
15.00 BÍ/Bolungarvík - Víkingur Ó 0:1 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla
(Artjoms Goncars 61.)
16.00 ÍR - Selfoss 1:3 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla
(Stefán Þór Pálsson 38. - Viðar Örn Kjartansson 21., 35., 44.)
16.00 Grótta - Leiknir R. 1:1 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla
(Hafsteinn Bjarnason 90. - Óttar Bjarni Guðmundsson 27.)
16.00 ÍA - KA 5:0 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla
(Fannar Freyr Gíslason 11., Mark Doninger 50., Hjörtur Júlíus Hjartarson 78., 89., 90. - )
16.00 Haukar - Þróttur R. 3:3 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla
(Hilmar Emilsson 19. Alieu Jagne 22., 26. - Sveinbjörn Jónasson 16., 68. (víti), Dusan Ivkovic 17.)
16.00 Fjölnir - HK 2:2 LEIK LOKIÐ Leikskýrsla
(Ómar Hákonarson 7., 48. - Eyþór Helgi Birgisson 13., 53.)
3. DEILD KARLA, ÚRSLITALEIKUR:
14.00 KFR - KV 1:2 Leikskýrsla LEIK LOKIÐ
(Andrezej Jakimczvk 81. - Hreinn Bergs 45., Steinn Friðriksson 101.)
Textalýsing:
17.53 Leik lokið hjá Haukum og Þrótti R. með 3:3 jafntefli. Haukar þurfa því að spila í 1. deild að ári en leik ÍR og Selfoss er einnig lokið og það með sigri Selfyssinga 3:1. Þeir unnu sér þar með sæti í efstu deild ásamt ÍA sem þegar hafði tryggt sér sætið og sigur í deildinni.
17.52 Leik lokið hjá Gróttu og Leikni R., 1:1. Mjög mikilvægt jafntefli hjá Gróttu sem er nú með þriggja stiga forskot á Leikni þegar ein umferð er eftir.
17.51 Akranes MARK! 5:0 - Hjörtur Júlíus Hjartarson fullkomnar þrennuna fyrir ÍA gegn KA. Í kjölfarið er flautað af og ÍA tekur við bikarnum fyrir sigur í 1. deildinni 2011.
17.50 Seltjarnarnes MARK! - 1:1 - Ótrúleg tíðindi frá Gróttuvelli þar sem heimamenn eru að jafna metin. Það gerði Hafsteinn Bjarnason eftir fast leikatriði þegar ein mínúta var komin framyfir venjulegan leiktíma. Rándýrt mark eins og tíðindamaður okkar þar orðaði það því þar með er Leiknir R. aftur komið í fallsæti.
17.49 - Akranes MARK! 4:0 - Markahrókurinn Hjörtur Júlíus Hjartarson bætir við öðru marki sínu og fjórða marki ÍA gegn KA. Markið á 89. mínútu en hann komst einn innfyrir vörn KA og átti ekki í vandræðum með að skora.
17.35 - Akranes MARK! 3:0 - Markahrókurinn Hjörtur Júlíus Hjartarson bætir við þriðja marki ÍA gegn KA og innsiglar þar með sigurinn en markið á 78. mínútu. Hjörtur potaði boltanum í markið eftir fyrirgjöf samkvæmt tíðindamanni mbl.is á Akranesi.
17.32 - Breiðholt - 70. mín. 1:3. Viðar fékk opið færi til að bæta við fjórða markinu fyrir Selfoss þegar Sævar Þór Gíslason lagði upp fyrir hann frábært færi en Róbert Örn í marki ÍR varði glæsilega.
17.30 - Hafnarfjörður MARK! 3:3 - Þróttarar ætla að gera Haukum lífið leitt en Sveinbjörn Jónasson var að jafna metin með marki úr vítaspyrnu á 68. mínútu. Haukar þurftu reyndar að treysta á að Selfoss tapaði gegn ÍR til að eiga möguleika að komast upp. Það er ekki að gerast því Selfoss er 3:1 yfir. Mark Þróttara stráir þó salti í sárin hjá Haukum.
17.19 - Grafarvogur MARK! 2:2 Eyþór Helgi Birgisson jafnar aftur metin fyrir HK gegn Fjölni. Markið á 53. mínútu eftir stungusendingu inn fyrir vörn Fjölnis. Markaskorararnir eru því báðir komnir með tvö mörk, Ómar fyrir Fjölni og Eyþór fyrir HK.
17.08 - Akranes MARK! 2:0 - Mark Doninger skorar annað mark ÍA gegn KA. Hann fékk sendingu fyrir markið og skallaði boltann glæsilega í netið. Skaginn ætlar greinilega að taka við bikarnum eftir sigur eins og í stefnir. Það er þó mikið eftir og KA menn líklega ekki búnir að játa sig sigraða.
17.03 - Grafarvogur MARK! 2:1 Ómar Hákonarson kemur heimamönnum í Fjölni yfir á nýjan leik á 48. mínútu eftir sendingu frá Aroni Sigurðarsyni. Annað mark Ómars.
16.56 - Hálfleikur í þeim leikjum sem hófust klukkan 16. Ef við rennum aðeins yfir stöðuna í hálfleik þá er Leiknismenn búnir að jafna Gróttu að stigum eins og staðan er núna. Þeir eru auk þess komnir úr fallsæti miðað við markatölu. Staðan í leik liðanna er 0:1. Hjá Haukum og Þrótti R. er staðan 3:2 en Þróttur skoraði fyrstu tvö mörk leiksins. Haukarnir voru hinsvegar ekki lengi að komast yfir aftur eins og sjá má á lýsingunni hér að neðan. Þá klúðraði Hilmar Trausti Arnarsson fyrirliði liðsins vítaspyrnu á 34. mínútu. Staðan hjá Fjölni og HK er 1:1 en sá leikur skiptir litlu máli í baráttunni á botni og toppi deildarinnar. Hjá ÍA og KA er staðan 1:0 en Skagamenn taka við bikarnum í lok leiks.
16.52 - Ísafjörður - Leik lokið með sigri gestanna, Víkings Ó. Það var Artjoms Goncars sem skoraði eina mark leiksins þegar hann fylgdi eftir vítaspyrnu sem hann klúðraði sjálfur. Bragðdaufur leikur en Ólsarar taka stigin þrjú og leikmenn BÍ/Bolungarvíkur sitja eftir með sárt ennið, lokatölur 1:0.
16.49 - Breiðholt MARK! 1:3 - Viðar Örn fer á kostum og skorar þriðja mark sitt fyrir Selfoss og kemur þeim í 3:1. Markið aftur eftir vítaspyrnu eins og það fyrsta.
16.43 Breiðholt MÖRK! 1:2 - Staðan í leik Selfoss og ÍR breyttist á skömmum tíma: 38. mín. 1:2. MARK! Stefán Þór Pálsson minnkar muninn af harðfylgi, komst í gegnum vörn Selfoss og skoraði framhjá Jóhanni Ólafi markverði. 35. mín. 0:2. MARK! Aftur Viðar Örn eftir vel útfærða sókn
16.42 Akranes MARK! 1:0 - Á Akranesi er staðan 1:0 fyrir meistara ÍA. Það var Fannar Freyr Gíslason sem skoraði markið á 11. mínútu.
16.38 Breiðholt MARK! 21. mín. 0:1 - Brotið á sóknarmanni Selfoss og dæmt víti sem Viðar Örn Kjartansson skoraði úr í vinstra hornið.
16.35 - Úrslitaleik KFR og KV er lokið með sigri KV 2:1 eftir framlengdan leik. Hreinn Bergs kom KV yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Andrezej Jakimczvk jafnaði metin níu mínútum fyrir leikslok og því þurfti að grípa til framlengingar. Þar voru leikmenn KV sterkari og Steinn Friðriksson skoraði sigurmarkið um miðjan fyrri hálfleik framlengingar. KV er því meistari 3. deildar karla í knattspyrnu þetta sumarið en bæði lið spila í 2. deild næsta sumar.
16.30 - Hafnarfjörður MARK! 3:2 - Þau hætta bara ekki að berast tíðindin frá leik Hauka og Þróttar R. Alieu Jagne skorar sitt annað mark á 26. mínútu. Staðan því 3:2 og fimm mörk á 26 mínútum. Forysta Þróttar stóð ekki lengi en þeir komust í 2:0 eins og sjá má neðar í lýsingunni.
16.28 - Seltjarnanes MARK! 0:1 - Leiknir R. kemst yfir gegn Gróttu, Óttar Bjarni Guðmundsson skoraði markið skoraði markið á 27. mínútu eftir hornspyrnu.
16.25 - Hafnarfjörður MARK! 2:2 - Það er boðið uppá markasúpu í Hafnarfirði, fjögur mörk á 22 fyrstu mínútum leiksins. Heimamenn jafna metin með marki frá Alieu Jagne á 22. mínútu.
16.20 - Vesturbær - Rautt spjald, Ingvar Rafn Stefánsson hjá KV fær að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt eftir 5 mínútur í seinni hálfleik framlengingar gegn KFR.
16.20 - Hafnarfjörður MARK! 1:2 - Haukar voru ekki lengi að minnka muninn og mörkunum hreinlega rignir inn. Hilmar Emilsson minnkar muninn á 19. mínútu. Staðan því 1:2 hjá Haukum og Þrótti R.
16.17 Hafnarfjörður MÖRK! 0:2- Tvö mörk með skömmu millibili hjá gestunum. Haukar sóttu mikið í upphafi en Þróttarar skora mörkin. Sveinbjörn Jónasson gerði það fyrra á 16. mínútu og Dusan Ivkovic það síðara aðeins mínútu síðar.
16.16 - Ísafjörður MARK! 0:1 - Eftir bragðdaufar upphafsmínútur í seinni hálfleik skorar Víkingur Ó. Þeir fengu víti eftir 16 mínútur í seinni hálfleik og vítið tók Artjoms Goncars en Þórður Ingason varði. Goncars fylgdi hinsvegar á eftir og skoraði.
16.15 - Grafarvogur MARK! 1:1 Eyþór Helgi Birgisson skoraði fyrir HKeftir klafs í teignum og klaufagang hjá markmanni Fjölnis. Gestirnir ekki lengi að svara fyrir sig en markið á 13. mínútu.
16:13 - Vesturbær - Fyrri hálfleik framlengingar er lokið. Rétt áður en dómarinn flautaði af átti Snorri Sigurðsson gott skot sem markvörður KFR varði í horn. EFtir hornspyrnuna átti Skúli Jónsson skalla að marki sem varnarmenn KFR björguðu á línu.
16.10 - Grafarvogur MARK! 1:0 - Ómar Hákonarson skorar á 7. mínútu eftir stungusendingu frá Aroni Sigurðarsyni og kemur heimamönnum í Fjölni yfir gegn HK sem er þegar fallið í aðra deild.
16.04 - Vesturbær MARK! 1:2 - Steinn Friðriksson kemur KV yfir í framlengingunni en fyrri hálfleikur hennar er um það bil hálfnaður. KV hefur sótt meira og virðast líklegri.
16.00 Þá er boltinn farinn að rúlla í fimm leikjum í 1. deildinni. Leiknir R. getur fallið tapi þeir fyrir Gróttu á Seltjarnanesi. Þá getur Selfoss tryggt sér sæti í efstu deild en fylgst er sérstaklega með þeim leik. Við munum þó að sjálfsögðu uppfæra stöðuna hér úr Breiðholtinu.
15.55 - Ísafjörður - Staðan er markalaus í hálfleik hjá BÍ/Bolungarvík og Víkingi Ó.
15.52 - Vesturbær - Staðan eftir venjulegan leiktíma í úrslitaleik KFR og KV í 3. deild karla er 1:1. Það þarf því að grípa til framlengingar þar sem hefst eftir nokkrar mínútur.
15.31 - Vesturbær MARK! 1:1 - KFR jafnar metin á 81. mínútu. Þar var að verki Andrezej Jakimczvk og spennan því í hámarki á KR-velli og allt útlit að framlengja þurfi leikinn.
15.31 - Vesturbær - Nokkuð hefur verið um færi á KR-vellinum og vildu leikmenn KV meðal annars fá víti en dómari leiksins ekki á sama máli. Markmaður KFR virtist brjóta á sóknarmanni KV. Þá komust þeir einir gegn markverði KFR en færið fór forgörðum. KFR hefur átt nokkrar efnilegar sóknir sem þó hafa ekki skilað hættulegum færum samkvæmt tíðindamanni mbl.is á vellinum. Staðan enn 0:1.
15.30 - Ísafjörður - Staðan er enn markalaus á Ísafirði eftir um hálftíma leik.
15.00 - Ísafjörður - Leikur BÍ/Bolungarvíkur og Víkings Ó. er hafinn í 1. deild karla.
14.52 - Mosfellsbær MARK! 1:2 - Afturelding minnkar muninn í uppbótartíma en þar var að verki Carla Lee.
14.51 - Hlíðarendi - Leik lokið með jafntefli Vals og ÍBV 4:4.
14.51 - Árbær - Leik lokið með sigri Grindavíkur 1:2 á Fylki. Þrátt fyrir það fellur Grindavík úr deildinni og það á markamun.
14.50 - Akureyri - Leik lokið með sigri Þórs/KA 4:0 á KR. Grindavík er því fallið í 1. deild en KR heldur sér uppi á markamun ef leikurinn í Árbænum endar eins og staðan er núna 1:2 fyrir Grindavík.
14.50 - Vesturbær MARK! 0:1 - Rétt áður en flautað var til leikhlés skoraði Hreinn Bergs fyrsta mark leiksins í viðureign KFR og KV sem er úrslitaleikur í 3. deildinni. KV er því yfir í hálfleik.
14.48 - Árbær MARK! 1:2 - Gestirnir frá Grindavík komast yfir á 38. mínútu seinni hálfleiks. Það var Shaneka Gordon sem skoraði og það hennar annað mark í leiknum. Þetta er þó of lítið og of seint og ljóst að KR heldur sér í deildinni á markamun.
14.46 - Mosfellsbær MARK! 0:2 Gunnhildur Ásmundsdóttir skorar annað mark Þróttar og sér til þess að liðið fellur með sæmd úr deildinni. Markið á 83. mínútu.
14.45 - Hlíðarendi MARK! 4:4 - Gestirnir hafa ekki játað sig sigraða. Melissa Cary sem kom inná sem varamaður skoraði beint úr aukaspyrnu af löngu færi á 87. mínútu og jafnar metin. Glæsileg endurkoma ÍBV.
14.42 - Hlíðarendi MARK! 4:3 - ÍBV hefur ekki gefist upp gegn Val. Berglind Björg Þorvaldsdóttir var að minnka muninn á 84. mínútu og stefnir því í spennandi lokamínútur. Bæði lið eru þó örugg í sínum sætum, Valur í öðru og ÍBV í því þriðja.
14.36 - Garðabær MARK! 5:0 - Veislan heldur áfram hjá Stjörnunni sem fær bikarinn afhendan í lok leiks. Harpa Þorsteinsdóttir bætir við öðru marki sínu á 79. mínútu og fimmta marki Stjörnunnar.
14.35 - Akureyri MARK! 4:0 - Diane Caldwell bætir við fjórða markinu fyrir Þór/KA gegn KR. Það er hinsvegar ekki nóg fyrir Grindavík en staðan er enn jöfn hjá þeim gegn Fylki. Markið á 77. mínútu.
14.33 - Mosfellsbær MARK! 0:1 - Þróttur R. var að komast yfir gegn Aftureldingu. Það var Soffía Kristinsdóttir sem skoraði markið á 71. mínútu. Þær ætla því að enda veru sína í efstu deild með sigri eða hvað?
14.28 - Eins og staðan er núna er Grindavík að falla úr efstu deild. Staðan hjá þeim er enn 1:1 á Fylkisvelli. Þór/KA er að vinna KR á Akureyri 3:0 en markatalan er of óhagstæð Grindavík svo það sé raunhæfur möguleiki þegar hér er komið við sögu að þær nái að bjarga sér. Það er enn markalaust í Mosfellsbæ þar sem Afturelding tekur á móti Þrótti R. sem þegar er fallið úr deildinni.
14.25 - Garðabær MARK! 4:0 - Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir vill vera með í veislunni í Garðabæ og hún skorar fjórða mark Stjörnunnar á 72. mínútu.
14.23 - Hlíðarendi MARK! 4:2 - Fjörið er á Hlíðarenda þar sem liðin í öðru og þriðja sæti deildarinnar mætast. Danka Podovac skorar annað mark ÍBV og lagar stöðuna aðeins. Markið á 66. mínútu.
14.19 - Hlíðarendi MARK! 4:1 - Kristín Ýr Bjarnadóttir kemur Val aftur í þægilega stöðu. Hún fékk þá sendingu frá Hallberu Guðnýju frá vinstri og skallaði boltann í netið á 63. mínútu.
14.05 Garðabær MÖRK! - 3:0 - Íslandsmeistarar Stjörnunnar byrja seinni hálfleik af krafti og ætla greinilega að enda tímabilið með stæl. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði fyrst á 51. mínútu og Harpa Þorsteinsdóttir fylgdi í kjölfarið með annað mark aðeins tveimur mínútum síðar.
14.00 Vesturbær - Þá er boltinn farinn að rúlla á KR-velli þar sem KFR og KV mætast í úrslitaleik um sigur í 3. deild karla. Bæði lið hafa tryggt sér þátttökurétt í 2. deildinni að ári. Það er því spilað upp á stoltið og bikar í dag.
13.48 - Það er enn markalaust í Mosfellsbænum eftir fyrri hálfleik þar sem Afturelding tekur á móti Þrótti R. sem var fyrir þessa umferð fallið úr deildinni. Hvorugt liðanna hefur fengið hættuleg færi og því jafnræði með liðunum. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar eru þó eins og best verður á kosið samkvæmt tíðindamanni mbl.is þar.
Staðan er jöfn 1:1 í Árbænum þar sem Fylkir tekur á móti Grindavík. Staðan er 3:0 fyrir Þór/KA gegn KR, Valur er að vinna ÍBV 3:1 og í leik Stjörnunnar og Breiðabliks er staðan 1:0 í hálfleik.
13.45 - Árbær MARK! 1:1 - Grindavík jafnar metin úr vítaspyrnu í Árbænum. Það var Shaneka Gordon sem tók spyrnuna og boltinn í netið. Markið á 39. mínútu.
13.45 - Akureyri MARK! 3:0- Það er líf og fjör á Akureyri. Marie Perez var að skora þriðja mark Þórs/KA en það á 43. mínútu.
13.41 - Akureyri - Dæmd var vítaspyrna á Þór/KA. Rosie Malone-Povolny fór á punktinn en Helena Jónsdóttir gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Þetta á 39. mínútu.
13.40 - Hlíðarendi - MARK! 3:1 - Gestirnir úr ÍBV minnka muninn gegn Val en þar var að verki Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem skoraði á 36. mínútu.
13.32 - Árbær - MARK! 1:0 - Nú eru komin mörk í öllum leikjum í Pepsi-deild kvenna nema hjá Aftureldingu og Þrótti. Lovísa Erlingsdóttir var að skora fyrsta markið í Árbænum fyrir Fylki sem tekur á móti Grindavík. Markið á 25. mínútu.
13.31 - Garðabær MARK! 1:0 - Íslandsmeistarar Stjörnunnar ætla greinilega að enda þetta sumar vel því markahrókurinn Ashley Bares var að koma þeim yfir eftir 30 mínútna leik gegn Breiðablik.
13.30 - Akureyri MARK! 2:0 - Þór/KA eykur forystuna á Akureyri. Það var Manya Makoski sem skoraði markið eftir varnarmistök hjá KR. Markið eftir hálftíma leik.
13.26 - Hlíðarendi MARK! 3:0 - Enn eru það heimastúlkur sem bæta við marki og aftur var það Björk Gunnarsdóttir eftir sendingu frá Laufeyju Ólafsdóttur sem átti góðan sprett fram völlinn frá miðju að vítateig áður en hún sendi boltann á Björk. Markið á 25. mínútu.
13:10 - Hlíðarendi MARK! 2:0 - Valsstúlkur fara á kostum hér í upphafi leiks. Þær skora annað markið á 5. mínútu. Hallbera Guðný Gísladóttir átti þá sendingu fyrir markið frá vinstri. Einhver misskilningur var á milli markvarðar ÍBV og Juliu Nelson og boltinn af þeirri síðarnefndu og í netið. Markið skráist því sem sjálfsmark.
13.08 - Akureyri MARK! 1:0 - Heimastúlkur komast yfir gegn KR með marki frá Söndru Maríu Jessen á 7. mínútu. Hún fékk sendingu frá Manju Makoski.
13.05 Hlíðarendi MARK! - 1:0 - Valur skorar fyrsta mark dagsins í íslenska fótboltanum. Þar var að verki Björk Gunnarsdóttir og Valur byrjar því vel gegn ÍBV. Markið strax á þriðju mínútu.
13.00 Þá er boltinn farinn að rúlla í leikjunum í Pepsi-deild kvenna. Stjarnan lyftir bikarnum sama hvernig fer í Garðabæ. Þá eru örlög Grindavíkur nánast ráðin en eitthvað stórkostlegt þarf að gerast svo liðið bjargi sér frá falli með Þrótti R. í 1. deildina.